Byggð á ákvörðun ríkissaksóknara – ekki orðrómi

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ákvörðun um að veita lögreglumanni lausn frá starfi um stundarsakir var byggð á ákvörðun ríkissaksóknara um að hefja formlega rannsókn á hendur honum en ekki á grundvelli orðróms. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Greint var frá því í hádegisfréttum RÚV í dag að lög­reglu­stjóra höfuðborg­ar­svæðis­ins hafi ekki verið heim­ilt að víkja lög­reglu­manni í fíkni­efna­deild tíma­bundið úr starfi eft­ir að rann­sókn hófst á meint­um brot­um hans í starfi og vitnað í niðurstöðu inn­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins. Þar segir jafnframt að lög­reglu­stjór­inn hafi byggt ákvörðun sína fyrst og síðast á orðrómi frek­ar en gögn­um.

Fyrri frétt mbl.is: Ekki heimilt að víkja lögreglumanni úr starfi

Í tilkynningu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir að upphaf málsins hafi verið formlegt erindi frá ríkissaksóknara sem barst 11. janúar sl. þar sem ríkissaksóknari tilkynnti að hann hefði mælt fyrir um að hefja sakamálarannsókn á hendur lögreglumanni hjá embættinu. „Í tilkynningunni kemur fram að sakarefni málsins séu alvarleg með heimfærslu til 128. og 136. gr. almennra hegningarlaga. Lögum samkvæmt ber þá embættinu að taka afstöðu til þess hvort lög stæðu til þess að veita lögreglumanninum lausn um stundarsakir eða á meðan rannsókn fer fram.  

Í framhaldinu var tekið til skoðunar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samræmi við ákvæði starfsmannalaga, hvort veita bæri lögreglumanninum lausn frá embætti um stundarsakir, eins og kveðið er á um,“ segir í tilkynningu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Þegar ákvörðunin var tekin hafði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hvorki stöðu né forsendu til að endurmeta þann rökstudda grun sem ríkissaksóknari grundvallaði ákvörðun sína á. Það var niðurstaða embættisins að þær athafnir sem lögreglumaðurinn var grunaður um væru ósamrýmanlegar því embætti sem hann gegndi og að háttsemi sem grunur lék á um, myndi hafa í för með sér sviptingu starfsréttinda  yrði hann sakfelldur. „Með vísan til þessa var lögreglumanninum veitt lausn um stundarsakir,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert