Pokémon-æði á Íslandi

Pokémon-æði hefur gripið landann.
Pokémon-æði hefur gripið landann. AFP

Pokémon-æði virðist hafa gripið landann í kjölfar útkomu tölvuleikjarins Pokémon Go, sem dótturfyrirtæki Google, Niantic, gefur út. Leikurinn gerist í raunheimum, þar sem spilarar ganga um götur og torg og reyna að fanga Pokémona, lítil furðuleg skrímsli, sem leynast víða. Markmiðið er að safna þeim öllum, en þau eru á annað hundrað eins og er, en á eflaust eftir að fjölga með tímanum.

Þá eru svokallaðar stöðvar (e. gym) og pokéstopp víða, sem spilarar þurfa að heimsækja. Á pokéstoppunum geta spilarar nálgast ýmsar nytjavörur á borð við pokékúlur, sem notaðar eru til að fanga Pokémona, en stöðvarnar eru staðir sem spilarar geta komið sínum Pokémonum fyrir á og tekið yfir stöðina fyrir sitt lið. Liðin eru þrjú talsins; bláa liðið, gula liðið og rauða liðið. Bláa liðið er vinsælast meðal íslenskra Pokémon-spilara, en það gula er fámennast.

Staðsetningarnar fengnar úr öðrum leik

Friðrik Skúlason.
Friðrik Skúlason. mbl.is/Steinar

Friðrik Skúlason tölvunarfræðingur þekkir vel til staðsetninga stöðvanna og stoppanna, en þær byggjast á staðsetningarpunktum annars tölvuleiks; Ingress. „Eitt af lykilatriðunum er að í Ingress gátu menn sent inn [staðsetningar]punkta, t.d. kirkjur, listasöfn, útilistaverk og þess háttar, og ég og nokkrir fleiri vorum nokkuð duglegir að senda inn punkta. Það eru um 2000 punktar á Íslandi og þar af sendi ég inn um helming. Þegar Niantic fer í samstarf við Nintendo um að búa til Pokémonleik endurnýta þeir punkta sem höfðu verið sendir inn fyrir Ingress-leikinn og eru þeir því núna pokéstopp og stöðvar.“

Friðrik segir punktana helst vera í miðborgum stærri borga, en þó nokkuð af þeim sé í miðbæ Reykjavíkur. „Hérna á Íslandi er þetta vandræðalaust. Liðin hafa haldið þessu hreinu og engir punktar sem leiða mann á lokaða staði og ekkert á einkasvæðum eða lokuðum svæðum. Málið er að þú þarft ekki að vera nákvæmlega á punktinum – í Ingress eru það 35 metrar en í Pokémon fer það svolítið eftir því hvað þú ert að gera.“

Íslenskar staðsetningar að mestu heppilegar

Nokkuð hefur borið á fréttum erlendis, sem greina frá fyrirtækjum og stofnunum sem vísa hafa þurft Pokémon-spilurum frá, sem sótt hafa staðina til veiða. Friðrik segir lítið um slíka staði hér á landi. „Við Ingress-spilararnir höfum verið duglegir við að halda Íslandi hreinu, senda inn leiðréttingar á staðsetningum o.þ.h. Það eru nokkrir punktar hér sem eru ekki til, t.d. við veggjakrot sem hafa verið hreinsuð burt, en það eru engir erfiðir punktar.“

Þó séu punktar á einhverjum stöðum sem hugsanlega sé illa séð að veiða á og nefnir Friðrik að t.d. séu punktar í Fossvogskirkjugarði. Mbl.is setti sig í samband við kirkjugarðinn og fékk þær upplýsingar að eitthvað hefði orðið vart við menn á Pokémonveiðum í garðinum, en það hafi þó ekki hlotist nein truflun af þeim. Punktarnir eru hins vegar aðeins staðsetningar stöðva og Pokéstoppa, en Pokémonarnir sjálfir geta birst nokkurn veginn hvar sem er. „Það er notast við Google Maps og þeir staðsetja þá t.d. ekki inni í húsum en þeir geta alveg lent í garðinum hjá einhverjum.“  

Svo virðist sem eitthvað sé um það, en netverjar hafa greint frá því að veiðar hafi átt sér stað við híbýli þeirra. 

Ekki fyrir alla landsmenn

Á vefnum má finna Íslandskort, þar sem merkt hafa verið inn á Pokéstopp og -stöðvar, auk staða þar sem algengt er að finna megi Pokémona. Það er hins vegar langt frá því að vera fullkomið, segir Friðrik. „Þetta kort er bara búið til af spilurum á staðnum sem hafa sett inn punkta. Í Vestmannaeyjum eru t.d. 50 Ingress-punktar en enginn á kortinu.“

Það er þó ekki þar með sagt að hægt sé að spila alls staðar á landinu. „Nei. Í algjöru dreifbýli er þetta mjög erfitt. Það er ekki mjög mikið af punktum í sumum af minni plássum landsins. Það hversu mikið er af pokéstoppum og þjálfunarstöðvum ræðst af Ingress-punktunum og fer því eftir því hversu margir hafa sett þá inn.“

„Túristarnir sem koma hingað til lands setja síðan punkta víða. Það eru punktar við Bláa lónið, á Þingvöllum, við Gullfoss og Geysi, það eru punktar í Landmannalaugum og Keldur á Rangárvöllum eru punktur. Ef þú keyrir þjóðveginn er mikið af punktum; Eyjafjallajökulssafnið er punktur, það er hellingur í Vík í Mýrdal og Kirkjubæjarklaustri, það eru punktar um allt land.“

Viðskipta- og lýðheilsuleg snilld

„Snilld, ekkert annað hægt að segja um þetta.“ Niantic hefur fengið Ingress-spilara til að setja inn staðsetningar og þannig fengið þrjár milljónir ólaunaðra starfsmanna til að senda inn myndir og staðsetningar á áhugaverðum stöðum um allan heim. „Þeir geta notað þessi gögn í margt annað. Þeir hafa upplýsingar um hvert fólk fer, hvert það labbar og hvaða leið, mannfjöldann á ákveðnum stöðum. Þeir hafa gífurlegt magn upplýsinga og geta notað í þessum Pokémon-leik.“

Frétt mbl.is: Verðmæti Nintendo rokið upp um 65%

Frétt mbl.is: Pokémon Go safnar öllum gögnunum

„Eitt af því sem er sniðugt við þennan leik er að hann er mjög góður fyrir lýðheilsu. Það liggur við að maður stingi upp á að læknar skrifi upp á pokémonleikinn fyrir fólk sem þyngdarvandamál, því þetta neyðir fólk til að hreyfa sig.“ Ein leið til að eignast Pokémona er að komast yfir egg, ýmist á pokéstoppum eða með því að kaupa þau inn í leiknum og láta þau klekjast út. „Maður ungar út eggjum með því að labba og það er hraðamælir, svo ef þú ferð hraðar en 30 km/klst, telur það ekki, svo það er ekki hægt að aka og svindla þannig.“

Hópveiði um helgina

Sturla Freyr Magnús­son.
Sturla Freyr Magnús­son. Mynd/Facebook

Næstkomandi laugardag verður haldin hópveiði, sem auglýst hefur verið í Facebook-hópnum Íslenskir Pokémon-þjálfarar. Sturla Freyr Magnússon stendur fyrir veiðinni og segist hann búast við góðri mætingu. „Seinast þegar ég athugaði voru um 60 búnir að boða komu sína og yfir 100 höfðu lýst yfir áhuga. Það eru einhver hundruð að bætast við í hópinn, þannig að áhuginn vex með hverjum degi.“

Ólíkt fyrri Pokémon-æðum er stór hluti spilara nú fólk sem komið er á fullorðinsaldur og spilaði Pokémon sem börn. „Það er rosalega mikið um það. Þetta er draumur sem ég átti sem barn að rætast. Þegar maður spilaði þessa leiki sem sem barn hugsaði maður hvað það væri ógeðslega „kúl“ ef þetta væri í alvöru, og nú er þetta það,“ segir Sturla, en hann verður 25 ára á árinu.

Fullorðinn Pokémon-spilari deilir reynslu sinni á Twitter.

Ekki er enn kominn staður fyrir veiðina, en leit er í fullum gangi að hentugri staðsetningu, þar sem mörg pokéstopp eru á litlu svæði. Sturla segir að líklega fáist staðsetning innan skamms, en það eina sem sé ákveðið er að veiðin verður haldin á höfuðborgarsvæðinu. Í leiknum er hægt að verða sér úti um nokkurs konar beitu, sem laðar að Pokémona, og notast verður við slíkar beitur við veiðina, en þeir sem vilja taka þátt í henni þurfa ekki endilega að koma með eigin beitu. „Ég er með nokkra menn sem eiga nóg og mun annars kaupa sjálfur, ef það vantar. Það þarf bara einn að setja niður beitu en allir geta nýtt hana.“

Pokémonarnir elta mannfólkið

Sturla segist hafa kannað dreifingu Pokémonana og fari það eftir fjölda tengdra síma, hversu marga Pokémona megi finna. Símarnir þurfa ekki að vera tengdir leiknum, heldur einungis tengdir netinu. „Sjálfur fer ég niður í bæ þegar það eru margir þar og finn að það er mikill munur. Ég hef notað Grafarholtið sem prufusvæði fyrir mig og ef ég er þar þegar allir eru í vinnunni er allt tómt, en þegar fólk er komið heim er allt í Pokémonum.“

Frétt mbl.is: Leynist Pokémon á Vatnajökli?

Pokémonarnir eru þó misalgengir og þar af leiðandi miseftirsóttir. „Við vitum minna um sjaldgæfari Pokémonana. Ég hef lesið mikið á netinu um það sem aðrir hafa verið að rannsaka og það virðist ekki vera bundið við ákveðna staði hvar flestir Pokémonar eru, en við höfum kenningar um að langsjaldgæfustu Pokémonarnir séu á ákveðnum stöðum. Það er orðrómur um að Articuno sé á Vatnajökli, svo hópurinn minn mun líklega fara og sjá hvort eitthvað sé til í því bráðlega,“ en Articuno er ístýpa og mjög sjaldgæfur. Þótt einungis sé um orðróm að ræða segir Sturla auðvelt að trúa honum, því Pokémonarnir virðast finnast við svæði sem eru þeim „náttúruleg“, ef svo má segja, og þar sem Articuno sé ístýpa og Vatnajökull sé stærsti jökull Evrópu, hljómi það sennilegt. „Þú finnur vatnspokémona við stöðuvötn og í fjörum og þar sem er mikill ís er Articuno líklegur til að vera.“

Förum varlega

Það er ekki hættulaust að ferðast um allar trissur í leit að Pokémonum. Að utan hafa borist fréttir af umferðarslysum þar sem spilarar hafa ekið og leitað samtímis og hefur lögregla í Ástralíu í tvígang þurft að senda út tilkynningu þar sem ökumenn eru beðnir um að spila ekki undir stýri. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hafa ekki orðið slys á fólki við Pokémon-leit hér á landi.

Frétt mbl.is: Leitaði að Pokémonum – fann lík

Frétt mbl.is: Rændu grandlausa Pokémon-spilara

Frétt mbl.is Pokémon-þjálfari stunginn

Þá hafa borist fregnir af ýmsum hremmingum spilara leiksins úti í löndum. Þannig hafa óprúttnir aðilar í Ameríku stundað það að ræna spilarana, einn gekk fram á lík þar vestra við leit að Pokémonum og annar var stunginn á Pokémon-veiðum.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert