Samrýndar systur og grænkerar

Júlía Sif og Helga María Ragnarsdætur stofnuðu bloggsíðuna veganistur.is fyrr …
Júlía Sif og Helga María Ragnarsdætur stofnuðu bloggsíðuna veganistur.is fyrr í sumar. Ljósmynd/Rakel Erna Skarphéðinsdóttir

Systurnar Helga María og Júlía Sif Ragnarsdætur eiga ýmislegt sameiginlegt. Þær eru báðar grænkerar, eða vegan, og elska að elda góðan mat. Þær gerðust báðar vegan á einni nóttu, ekki þeirri sömu þó, og halda úti skemmtilegu bloggi, Veganistur, þar sem þær deila fljótlegum og girnilegum vegan-uppskriftum.

Ég gerðist vegan fyrir fimm árum, fyrst af heilsuástæðum, en í dag snýst þetta um svo margt fleira,“ segir Helga María. Yngri systir hennar, Júlía Sif, varð vegan þegar hún byrjaði í menntaskóla fyrir fjórum árum. „Fyrir mér snerist þetta aðallega um siðferðislegu hliðina. Í dag erum við vegan fyrir dýrin, jörðina og mannfólkið,“ segir Júlía Sif. Veganismi er ein hugmynd innan grænmetishyggjunnar, þeir sem eru vegan borða engar dýraafurðir, hvorki líkama, mjólk né egg.

Aldrei saknað neins

Báðar tóku þær ákvörðunina frekar skyndilega. „Ég eyddi einum degi í að afla mér upplýsinga um lífsstílinn og sama kvöld var ég ákveðin og hef ekki litið til baka síðan,“ segir Helga María. Júlía Sif flutti til systur sinnar þegar hún byrjaði í menntaskóla og gerðist vegan á einni nóttu. „Einn daginn var ég að borða lambalæri og skyr og daginn eftir var ég hætt að borða allar dýraafurðir og hef aldrei saknað neins,“ segir Júlía Sif.

Fyrir tveimur árum byrjuðu systurnar að nýta sér samfélagsmiðla til að þróa vegan-lífsstílinn og deila með öðrum. „Við birtum myndir af því sem við vorum að borða og myndir af vegan-vörum sem við mælum með. Facebook-síðan lagðist svo í smá dvala í nokkra mánuði þar til við systur ákváðum að opna hana aftur. Þá stofnuðum við Instagram og Snapchat og fengum mun fleiri fylgjendur. Það var svo ekki fyrr en núna í sumar sem við loksins opnuðum veganistur.is,“ segir Helga María. Bloggið hjálpar systrunum einnig að halda góðu sambandi, en Helga María er búsett í Svíþjóð. „Ég er að leita mér að vinnu fyrir veturinn og stefni svo á háskólanám í djasssöng.“ Júlía er búsett á Selfossi en stefnir á að flytja í bæinn í haust og starfa á leikskóla.

Með blogginu vilja systurnar fá fólk til að líta öðrum augum á vegan-lífsstílinn. „Maður þarf ekki að eiga fullt af pening eða eyða öllum deginum í matargerð þegar maður er vegan. Það er ekkert mál að elda venjulegan, fljótlegan, ódýran, næringarríkan, fjölbreyttan og spennandi mat án þess að nota dýraafurðir,“ segir Júlía Sif.

Vilja upplýsa almenning

Tilgangur bloggsins er einnig að upplýsa fólk betur um hvað felst í því að vera vegan. „Við höfum oft lent í því að fólk haldi að við megum ekki borða óhollt. Við höfum fengið spurningar eins og: „Bíddu, þið megið ekki borða sykur og hveiti er það?“ Eins hefur fólk oft hugmyndir um það að vegan-fólk borði óspennandi mat og að við munum deyja úr næringarskorti og að við fáum ekkert prótein úr matnum okkar. Þetta er allt mjög fjarri sanni,“ segir Helga María. Systrunum finnst því mikilvægt að fólk sé betur frætt um veganismann. „Samtök grænmetisæta á Íslandi hafa verið dugleg að halda viðburði og fyrirlestra um veganisma. Eins eru til góðar bækur og heimildarmyndir um þessa hluti. Svo eru bloggsíður og Youtube-rásir einnig mikilvægar því þar er fólk sem talar af eigin reynslu,“ segir Júlía Sif.

Systurnar eru sammála um að heimur grænmetisæta, eða grænkera, sé alltaf að opnast og að fleiri möguleikar séu í boði nú en áður. „Fyrir fimm árum þegar ég gerðist vegan þekkti ég enga aðra grænkera. Það voru nokkrar grænmetisætur með mér í MH en enginn var vegan. Veitingastaðir buðu sjaldan upp á vegan-rétti og grænmetisréttirnir þeirra voru yfirleitt löðrandi í rjómasósu eða osti og majónesi. Þetta hefur breyst með tímanum og núna er Reykjavík ein af bestu borgunum fyrir vegan-fólk að heimsækja,“ segir Helga María.

Svíþjóð himnaríki grænkera

Helga María segir Svíana þó vera komna töluvert lengra í ferlinu en okkur Íslendingana. „Svíþjóð er himnaríki fyrir vegan-fólk. Þar færðu allskonar vegan-vörur í öllum verslunum og nánast hver einasti veitingastaður er með vegan-rétti á matseðlinum. Þar er einnig mjög algengt að fólk sem borðar kjöt velji samt grænmetiskostinn þar sem hann er í boði.“

Eldamennska og bakstur er meðal helstu áhugamála systranna. „Við erum báðar miklir kokkar en Júlía er öruggari þegar kemur að bakstri,“ segir Helga María. „Ég hef bakað frá því ég var ung. Helga María hringir oft í mig þegar hún er hrædd um að hún sé að klúðra bakstrinum,“ segir Júlía Sif. „Þegar við erum saman finnst okkur æðislegt að elda og baka og okkur líður báðum mjög vel í eldhúsinu.“

Þær eiga erfitt með að nefna uppáhaldsmat en vegan-sushi er í miklu uppáhaldi hjá Helgu Maríu og Júlía Sif er mikið fyrir mexíkóskan mat. „Svo borðar Helga María tahini, eða sesamsmjör, með öllu,“ segir Júlía Sif og hlær.

Hægt er að fylgjast með systrunum á www.veganistur.is og á Instagram og Snapchat undir nafninu Veganistur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert