„Við þurftum því miður að rifta samningnum“

Frá uppbyggingu kísilversins í Helguvík.
Frá uppbyggingu kísilversins í Helguvík. Ljósmynd/Hilmar Bragi

Magnús Garðarsson, stjórnarmaður í United Silicon, segir fyrirtækið hafa rift samningi við ÍAV í gær. „Þeir stóðu ekki við verkið og við þurftum því miður að rifta samningnum og fá aðra til að klára þetta,“ segir Magnús í samtali við mbl.is.

„Þeir voru ekki búnir að skila verkinu á réttum tíma og hafa komið með mjög skrýtnar og óréttmætar kröfur sem fara nú fyrir gerðardóm. Við tökum því rólega. Á meðan þurfum við að klára verkið með öðrum verktökum,“ segir Magnús.

Kísilverksmiðjan er að sögn Magnúsar 98% kláruð og framleiðslan er að fara í gang. 

Sigurður Ragnarsson, forstjóri ÍAV, segir vanefndir United Silicon slaga hátt í 1.000 milljónir. Magnús vísar þeim ásökunum á bug. „Það er tómt rugl. við höfum greitt alla reikninga sem þeir hafa sett fram. Það er meira að segja greiðsluábyrgð frá bankanum okkar sem þeir geta gengið að.“

Sjá frétt mbl.is: „Aldrei kynnst svona framkomu“

Magnús vildi að öðru leyti ekki tjá sig frekar um kröfur og gagnkröfur aðilanna og segir að málið muni leysast með gerðardómi sem kemur saman eftir sumarið.

Lögreglan á Suðurnesjum var í gær kölluð til þegar ÍAV lagði niður störf í Helguvík. Að sögn lögreglunnar var hún kölluð til en þurfti ekki að grípa inn í og hafi hún svo yfirgefið svæðið.

mbl.is