„Brotnaði niður og veröldin hrundi“

Íþróttamaðurinn Pálmi Guðlaugsson gerði sér lítið fyrir og kláraði hálfan járnkarl um þarsíðustu helgi. Pálmi fæddist líkamlega fatlaður en hefur aldrei látið fötlun sína stoppa sig þegar kemur að íþróttum. mbl.is heimsótti Pálma og ræddi við hann um íþróttirnar og árangurinn.

Landsliðsmaður í sundi

„Hreyfing hefur alltaf verið partur af minni daglegu rútínu,“ segir Pálmi, en það kom til að mynda aldrei til greina að sleppa skólaíþróttum. „Það er engin afsökun, maður er ekkert að sleppa þótt maður sé fatlaður,“ segir Pálmi, en íþróttir hafa löngum verið líf hans og yndi.

Pálmi æfði sund í 19 ár og var í landsliðinu um tíma. Sundið tók að reynast honum erfiðara svo Pálmi fór að horfa í greinar þar sem hann gæti átt meira langlífi sem íþróttamaður. Hann byrjaði að einbeita sér að hlaupum og fór sitt fyrsta hlaup með frænda sínum, Birgi Erni Birgissyni, sem hann lítur mikið upp til.

Sitt fyrsta hálfmaraþon hljóp Pálmi í október 2013, í fljúgandi hálku og á slitnum mannbroddum en lét ekki á sig fá. „Ég varð bara harðari fyrir vikið,“ segir Pálmi sem kláraði hlaupið votur í fæturna eftir að hafa stigið í poll. Stuttu síðar lenti Pálmi í lífsreynslu sem átti eftir að hafa á hann gríðarleg áhrif.

„Veröldin hrundi“

Gnístandi höfuðverkur sem varð svo að svima og skertri sjón varð til þess að Pálmi leitaði til læknis í desember 2013 og í ljós kom að hann hafði fengið blóðtappa.

Í kjölfar blóðtappans var tvísýnt með áframhaldandi íþróttaferil Pálma. Öryggisins vegna var honum ekki ráðlagt að hlaupa sem var gríðarlegt áfall fyrir Pálma. „Ég bara brotna niður og veröldin hrundi,“ segir Pálmi sem hafði lagt gríðarlega mikið á sig við að læra að hlaupa og var með stóra drauma.

Pálmi fékk að fara heim og verja jólunum með fjölskyldunni en um miðjan janúar lenti hann í því að sjónin fór aftur að raskast og í nokkrar mínútur missti hann algjörlega sjón á hægra auga. Í kjölfarið tóku við miklar rannsóknir en í ljós kom að hann var með bólgur í litla heila sem ollu krampa og hafði áhrif á sjón og jafnvægisskyn.

„Ég var mjög veikur og var varla að höndla þessar rannsóknir,“ segir Pálmi en betur fór en á horfðist í fyrstu og um fimm mánuðum eftir að hann fékk blóðtappann lauk Pálmi sinni fyrstu þríþrautarkeppni. „Ég fæ oft þreytuköst en það er bara eitthvað sem ég þarf að lifa með,“ segir Pálmi.

Síðan þá hafði hann dreymt um að taka þátt í hálfum járnkarli sem hann lét verða að veruleika 3. júlí síðastliðinn. „Ég er þannig séð í betra formi núna eftir að ég fékk blóðtappann,“ segir Pálmi sem er hvergi hættur.

Fyrstur fatlaðra á Íslandi

„Ég er fyrsti fatlaði maðurinn á Íslandi til að klára þetta,“ segir Pálmi sem er gríðarlega stoltur með árangurinn og vill gjarnan vera öðrum fyrirmynd. Þegar Pálmi setti sér það markmið að ljúka hálfum járnkarli segir hann þykkan vegg hafa verið á milli þess sem hann gat og þess sem hann ætlaði sér. „Ég gat ekkert af þessum hlutum, þurfti að leggja gríðarlega vinnu í að brjóta niður þennan vegg,“ segir Pálmi.

Það tókst honum á endanum en til að klára hálfan járnkarl þarf að synda 1,9 km, hjóla 90 km, og hlaupa hálfmaraþon eða 21 kílómetra. Pálmi lauk þrautunum á 8 klukkustundum og 4 mínútum. 

Það er þríþrautardeildin 3SH í Hafnarfirði sem heldur hálfa járnkarlinn og æfði Pálmi hlaup með þeim fyrir keppnina. Hann hafði sett sig í samband við Finnboga, þjálfara hjá 3SH, sem hefur reynst honum mjög vel í undirbúningnum. Hann æfði sund með Íþróttafélaginu Firði og Viðar Bragi var hjólreiðaþjálfarinn hans.

Pálmi var í 11 mánuði að undirbúa sig fyrir járnkarlinn en undirbúningsferlið gekk ekki áfallalaust fyrir sig. Pálmi meiddist á öxl og þurfti að vera í sjúkraþjálfun í rúma þrjá mánuði sem setti strik í reikninginn en hann kom til baka af fullum krafti.

Pálmi í keppnisgallanum sem hann klæddist er hann þreytti hálfan …
Pálmi í keppnisgallanum sem hann klæddist er hann þreytti hálfan járnkarl. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Æfingaferlið var strangt en þegar mest lét hljóp Pálmi og hjólaði samtals rúma 534 km á einum mánuði og á undirbúningsferlinu missti hann 12 kíló.

Þegar að keppninni kom var Pálmi tilbúinn í slaginn og kláraði fyrstu greinina, sundið, með glæsibrag. Næsta grein voru hjólreiðarnar en meðalhraði Pálma voru 22,5 km á klukkustund í miklum mótvindi.

Þegar kom að hlaupinu var lítið eftir af orku en Pálmi hélt þó ótrauður áfram. „Ég var svo hrikalega stífur í fótunum þegar ég byrjaði að hlaupa,“ segir Pálmi sem þurfti að labba fyrstu nokkur hundruð metrana á meðan hann var að ná sér í fótunum.

Hann ákvað þó að láta ekki mikið á því bera og greip sér pítsusneið áður en hann hljóp af stað með bros á vör þrátt fyrir krampa í fótum. „Það að hafa húmor og gott skap, það bjargar lífi manns,“ segir Pálmi sem er mikill húmoristi.

María Ögn hljóp með Pálma restina af leiðinni.
María Ögn hljóp með Pálma restina af leiðinni. Ljósmynd/Aðsend

Undir lok hlaupsins var Pálmi alveg búinn með tankinn og átti litla orku eftir. María Ögn Guðmundsdóttir hjólaþjálfari hljóp síðustu metrana með Pálma og segir hann það hafa verið mikla hvatningu. „Það var alltaf verið að hvetja mig, mér þótti svo gríðarlega vænt um það,“ segir Pálmi, sannfærður um að það hafi hjálpað sér að komast í mark.

Myndband af Pálma að koma í mark má sjá á Instagram-reikningi Maríu Agnar.

Tekur góða hvíld

Pálmi ætlar nú að taka sér góða hvíld frá íþróttum áður en hann heldur ótrauður áfram. Hálfi járnkarlinn tók alla þá orku sem hann átti og meira til og ætlar hann því að gefa sér góðan tíma í pásu og fara í gott frí.

Pálmi er fjölskyldu sinni, þjálfurum og öllum sem hafa stutt hann, gríðarlega þakklátur fyrir alla hjálpina, hvatninguna og stuðninginn sem hann hefur fundið fyrir. „Mér þótti mjög vænt um þessa hjálp,“ segir Pálmi og segist ekki geta þakkað fólkinu í kringum sig nægilega mikið. 

Pálmi í keppninni.
Pálmi í keppninni. Ljósmynd/Aðsend

„Það var aldrei neitt; „bíddu stopp, þú ert fatlaður,“ bara kýlum á þetta,“ segir Pálmi. „Það er ekki verið að einblína á hindrunina, heldur hvernig á að fara yfir hana,“ útskýrir Pálmi og segir að slíku viðmóti megi ekki taka sem sjálfsögðum hlut.

Í dag er Pálmi 28 ára og búinn að hlaupa þrjú hálfmaraþon og hefur lokið hálfum járnkarli. Hann lauk sínu fyrsta ári í félagsmála- og tómstundafræði við Háskóla Íslands í vor en hann lauk stúdentsprófi af félagsfræðibraut frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla í fyrra og stefnir á að halda áfram námi í haust.

Pálmi segir uppskeruna hafa verið erfiðisins virði og hvetur alla til að elta drauminn og gefa sér góðan tíma til þess. „Þora að dreyma og vera þolinmóður,“ segir Pálmi, „það er allt hægt.“

mbl.is