Björninn í nótt sá fimmti síðan 2008

Dýrið sem fellt var í nótt.
Dýrið sem fellt var í nótt. mbl.is/Björn Jóhann

Ísbjörninn sem felldur var við bæinn Hvalnes á Skaga í nótt er fimmti björninn sem sækir Ísland heim síðan 2008. Það ár voru tveir birnir felldir hér á landi.

Frétt mbl.is: Bjarndýr fellt á Skaga

Til þess fyrri sást við Þverárfellsveg, milli Sauðárkróks og Skagastrandar, að morgni 3. júní og var hann felldur síðar sama dag, en hætt var við því að týna birninum vegna þoku og var því ákvörðun tekin um að aflífa björninn.

Tæpum tveimur vikum síðar, 16. júní 2008, sást til annars bjarnar við bæinn Hraun á Skaga. Ákvörðun var tekin um að reyna að fanga björninn lifandi og var haft samband við dýragarðinn í Kaupmannahöfn, sem sendi sérfræðing til landsins sem lenti á Akureyri 17. júní, vopnaður sérútbúnu búri og deyfilyfjum, sem nota átti til að fanga bangsa. Föngun bjarnarins gekk hins vegar ekki eftir, þar sem sérfræðingnum danska tókst ekki að skjóta deyfilyfjum í dýrið þaðan sem hann var staðsettur og var björninn felldur þegar hann tók á rás til sjávar.

Hræ bjarnarins sem felldur var við Hraun 2008.
Hræ bjarnarins sem felldur var við Hraun 2008. mbl.is/Skapti

Eftir komu bjarnanna 2008 var útbúin viðbragðsáætlun við komu slíkra dýra hingað til lands.

Í janúar 2010 sást svo á ný til ísbjarnar, nú í Þistilfirði. Var dýrið skotið, en björninn var ungur og um tíma var talið að hann hefði komið hingað til lands í fylgd með öðrum, eldri birni, en sá fannst þó aldrei. Rætt var um að fanga dýrið, en búnaður sem fluttur hafði verið til landsins með danska sérfræðingnum, sem fanga átti björninn í Skagafirði 2008, var enn á landinu. Aðstæður þóttu hins vegar ekki ákjósanlegar og var dýrið fellt.

Hræið af birninum sem felldur var 2010.
Hræið af birninum sem felldur var 2010. mbl.is/Líney

Að morgni 2. maí 2011 tilkynnti áhöfn fiskibáts síðan um björn í fjörunni í Hælavík á Hornströndum. Dýrið var fellt síðar sama dag, en lögreglan á Ísafirði mat aðstæður svo að ómögulegt væri að vakta dýrið og tryggja þannig að það færi ekki í sjó eða færði sig í átt að byggð á svæðinu.

Ísbjörninn á Hornströndum 2. maí 2011.
Ísbjörninn á Hornströndum 2. maí 2011. Mynd/Landhelgisgæslan

Björninn sem felldur var í nótt er því sá fimmti sem drepinn hefur verið hér á landi á 21. öldinni, en þegar birnirnir tveir komu til landsins 2008 voru 15 ár síðan síðast sást til ísbjarnar hérlendis.

Rúmlega 600 birnir frá landnámi

Á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands segir að til séu upplýsingar um rúmlega 600 hvítabirni sem skráðir hafi verið hérlendis frá upphafi landnáms. Vissrar ónákvæmni gæti þó, þar sem vafalaust hafi dýr gengið hér á land án þess að menn hafi orðið við það varir eða skráð sérstaklega.

Myndin sýnir staðsetningar hvítabjarna, sem sést hefur til og skráðir …
Myndin sýnir staðsetningar hvítabjarna, sem sést hefur til og skráðir hafa verið á Íslandi frá landnámi. Mynd/Náttúrufræðistofnun

Eftir komur bjarnanna 2008 skipaði umhverfisráðherra starfshóp til að vinna tillögur um viðbrögð við hugsanlegri landtöku ísbjarna á Íslandi. Niðurstaða hópsins varð sú að skynsamlegast væri að fella dýrin og færði hann fyrir henni þrjú meginrök. Í fyrsta lagi eru það öryggissjónarmið, en birnirnir ógna öryggi almennings og búfjár. Í öðru lagi eru stofnstærðarsjónarmið, en dýrin sem hingað koma eru af austur-grænlenska stofninum sem þolir vel að nokkur dýr séu felld. Í þriðja lagi er það kostnaður við björgunaraðgerðir, en verulegur kostnaður fylgir björgunaraðgerðum á ísbjörnum og mat starfhópurinn það svo að sá kostnaður væri ekki réttlætanlegur.

Hvítabirnir eru alfriðaðir á Íslandi, samkvæmt lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Einungis má fella dýrin ógni þau mannfólki og búfénaði á landi, en skýrt er kveðið á um að ekki megi drepa hvítabirni úti á sjó, hvort sem þeir eru á sundi eða á ís.

mbl.is

Bloggað um fréttina