Samið í kjaradeilu flugumferðarstjóra

Langvinnri kjaradeilu flugumferðarstjóra og ISAVIA lauk með sátt á föstudag …
Langvinnri kjaradeilu flugumferðarstjóra og ISAVIA lauk með sátt á föstudag fyrir gerðardómi. mbl.is/Árni Sæberg

Kjaradeilu flugumferðarstjóra og Isavia lauk með sátt sem gerð var fyrir gerðardómi á föstudag. Þetta staðfestir Garðar Garðarsson, formaður gerðardóms.

Spurður út í efni sáttarinnar vísaði Garðar til Isavia og Félags flugumferðarstjóra en kvað þó gerðardóm hafa gætt að því að sáttin hafi verið innan settra marka skv. lögum sem samþykkt voru á Alþingi vegna kjaradeilunnar.

Garðar Garðarsson, formaður gerðardóms.
Garðar Garðarsson, formaður gerðardóms. Ljósmynd/Steinar H.

Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia, segir það ánægjulegt að samningar hafi náðst. „Við teljum þetta vera góða samninga fyrir flugumferðarstjóra. Núna er mikilvægt að ná rekstraröryggi aftur, þannig að við förum í gegnum sumarið án tafa vegna forfalla. Þetta er mjög ánægjulegt mál,“ segir Guðni.

Byggir á samningnum sem var felldur

Í lok júní náðist samkomulag milli Samtaka atvinnulífsins fyrir hönd Isavia og Félags íslenskra flugumferðarstjóra. Flugumferðarstjórar gengu í framhaldinu til atkvæðagreiðslu um samninginn og felldu hann með rúmum 60 prósentum atkvæða. Flugumferðarstjórar höfðu þá verið samningslausir frá 1. febrúar á þessu ári.

Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia.
Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia. mbl.is

Guðni segir samninginn sem var undirritaður á föstudag byggja á samningnum sem var felldur, með einhverjum breytingum. Samningurinn gildir út 2018 en Guðni vildi ekki gefa upp nánar í hverju samningurinn felst heldur vísaði slíkum spurningum til Félags flugumferðarstjóra.

Að sögn Guðna verða engar breytingar gerðar á því hvernig vaktir flugumferðarstjóra eru skipaðar. Hann býst við því að auðveldara verði að manna vaktirnar þegar forföll verða með nýja samningnum en þar að auki eru 30 nýliðar í þjálfun svo á milli 20 og 30 flugumferðarstjórar bætast við á næstu 18 mánuðum. Það nemur 20 til 30 prósenta aukningu þar sem flugumferðarstjórar eru um 100 talsins þessa stundina.

Hann segir að þjálfunarbann flugumferðarstjóra, sem var liður í verkfallsaðgerðum þeirra, hafi seinkað inntöku nýliða. „Það hafði áhrif, það væru einhverjir komnir í turnvinnu ef ekki hefði verið fyrir þjálfunarbannið,“ segir Guðni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert