Flugumferðarstjórar ekki sáttir

Deilu flugumferðarstjóra og Isavia er lokið í bili en þó …
Deilu flugumferðarstjóra og Isavia er lokið í bili en þó ekki endanlega þar sem sá fyrirvari var á sáttinni sem gerð var hjá gerðardómi á föstudaginn var að beðið yrði eftir dómi Hæstaréttar í dómsmáli sem FÍF hefur höfðað gegn Samtökum atvinnulífsins og íslenska ríkinu. Mynd/Delta Air Lines

Kjaradeilu flugumferðarstjóra og Isavia er ekki lokið með öllu. Sigurjón Jónasson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra, segir það fjarri sanni að allir séu sáttir við sáttina sem gerð var í kjaradeilunni fyrir gerðardómi á föstudag.

Frétt mbl.is: Samið í kjaradeilu flugumferðarstjóra

Sigurjón bendir á að sá fyrirvari hafi verið á sáttinni sem gerð var fyrir gerðardómi á föstudag að Félag íslenskra flugumferðarstjóra hyggist áfrýja dómsmáli gegn íslenska ríkinu og Samtökum atvinnulífsins vegna lagasetningar á yfirvinnubann flugumferðarstjóra til Hæstaréttar, sem verður gert síðar í dag.

„Þessi dómsátt til að ljúka þessari gerðarmeðferð byggir á kjarasamningi sem var felldur. Þarna horfðum við fram á tvo kosti, annars vegar að láta gerðardóm ákveða kjör okkar eða gera dómsátt. Af tvennum slæmum kostum töldum við betri kostinn að gera sáttina þó hún væri þvinguð með lagasetningunni frá Alþingi,“ segir Sigurjón.

Ekki hægt að þvinga menn til yfirvinnu

Félagsfundur var haldinn hjá flugumferðarstjórum í gærkvöldi vegna sáttarinnar sem gerð var á föstudag og segir Sigurjón flesta félagsmenn hafa verið sammála samninganefndinni um að skárri kosturinn hafi verið valinn af tveimur slæmum.

Hann segir að sá fyrirvari hafi verið á dómsáttinni að ekki verða greidd laun samkvæmt henni fyrr en dómur Hæstaréttar í málinu liggur fyrir. „Gerðarmálið og dómsmálið eru sitt hvort málið í okkar huga,“ segir hann en Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði í síðustu viku að lagasetningin á Alþingi stæðist stjórnarskrá og að meðalhófs hafi verið gætt að því leiti að ekki var kveðið í lögunum á um skyldu félagsmanna til að vinna yfirvinnu.

Sigurjón segir að niðurstaða gerðardóms hefði getað orðið lakari fyrir flugumferðarstjóra en að sama skapi hefði það hugsanlega ollið frekari truflunum á flugi. „Það hefði verið erfiðara að vinna áfram með óútkljáða deilu með áframhaldandi töfum á flugi og truflunum á flugumferð,“ segir hann og vísar þar til þess að það sé ekki hægt að þvinga flugumferðarstjóra til að vinna yfirvinnu.

„Þjónustan er undirmönnuð eins og er og það þarf að keyra hana á yfirvinnu. Það er ekki víst að það hefði verið hægt að reka þessa þjónustu hnökralaust ef gerðardómur hefði ákveðið kjör okkar,“ segir Sigurjón.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert