Blinda kisan er hætt að hlaupa á veggi

Kettlingurinn Embla er ein þeirra 100 katta sem þar til nýverið bjuggu á heimili á Suðurnesjum. Kettirnir bjuggu við afar slæm skilyrði, voru vannærðir og veikir. Embla var með slæma augnsýkingu sem hafði étið upp í henni augun þegar stjórnarkonur í félaginu Villiköttum komu henni til bjargar. Hún er því alveg blind. Hún var send í Kisukot á Akureyri þar sem hlúð var að henni og þaðan var hún ættleidd af Ásdísi Hrefnu Laufeyjardóttur, 19 ára Verkmenntaskólamær.

„Ég sá hana auglýsta af Kisukoti á Facebook,“ segir Ásdís um Emblu. „Það kom inn auglýsing um að hún [Ragnheiður Gunnarsdóttir – stofnandi Kisukots] hefði tekið inn ketti úr slæmum aðstæðum en hefði beðið með að sýna Emblu af því að hún væri svolítið sérstök, einmitt það að það vantaði í hana augun. Ég bara gat ekki hunsað þetta.“

Ásdís kveðst hafa skoðað myndina af Emblu litlu aftur og aftur og aftur. Tekið var fram í auglýsingunni að hún þyrfti að vera inniköttur og yrði að vera á barnlausu heimili. Ásdís og kærastinn hennar eru ekki með börn en áttu fyrir tvo inniketti. Úr varð að Ásdís fór og ræddi við Ragnheiði um þann aðbúnað sem Embla þyrfti en umfram það sem auglýst var hefur Embla engar sérþarfir.

„Hún er svo fljót að átta sig á hlutunum. Svo við fórum bara og sóttum hana. Við vissum að við myndum elska hana mjög mikið og mér fannst óþægilegt að hugsa til þess að hún myndi enda hjá einhverjum sem væri kannski bara svolítið sama.“

Hljóp á veggi í fyrstu

Ásdís segir Emblu hafa verið mjög hvekkta þegar hún kom fyrst á sitt nýja heimili. Í fyrstu hafi hún sett hana inn í svefnherbergið svo hún gæti vanist litlu rými í einu.

Ásdís heldur á Emblu sem vildi þó helst standa á …
Ásdís heldur á Emblu sem vildi þó helst standa á eigin fótum meðan á heimsókn blaðamanns mbl.is stóð. mbl.is/ Anna Marsý

„Þar labbaði hún um með skottið beint upp og klessti ekkert á, gekk bara meðfram öllu, yfir allar hindranir og skoðaði allt vel. Svo þegar hún var búin að venjast húsinu og fór að hlaupa og leika sér hljóp hún svolítið á veggi,“ segir Ásdís og hlær. 

„Ef ég set eitthvað nýtt á gólfið sem hún er ekki búin að gera ráð fyrir þá ruglar það hana. En núna sprettir hún út um allt og klessir ekkert á. Það er ekki að sjá að hún sé augnalaus nema þegar maður lítur á hana.“

Ásdís segir Emblu ganga vel að tengjast hinum kisunum sem eru læða og högni. Læðan, Emíl, sé prinsessan á heimilinu og hafi ekki verið sátt með þennan nýja fjölskyldumeðlim í fyrstu en nú leiki þær sér saman og rífist eins og hver önnur systkini. Embla hafi hins vegar strax tekið ástfóstri við högnann Tuma en hann er einmitt sjálfur með lélega sjón og hugsanlega einhverja þroskaskerðingu. Ásdís er þannig alls ekki ókunnug köttum með fatlanir en Embla þarf þó ekki mikla sérmeðferð. 

„Augntoturnar eru smá innfallnar af því að augun voru þarna en hurfu síðan, svo hún fær smá sár þegar það lekur úr augnbotnunum og þær nuddast saman. En það er eitthvað sem ætti að breytast þegar hún stækkar og ef ekki er hægt að sauma fyrir eða bera á smyrsli sem við fengum. Hún blikkar augunum þegar henni líður vel og lokar þegar hún sefur þannig að ég sé ekki ástæðu til að láta loka þeim nema það valdi vandræðum sem ekki er hægt að laga með öðrum hætti.“

Endalaus ást og þakklæti

Villikettir leita nú að varanlegum heimilum fyrir fjölmarga ketti og kettlinga sem einnig koma úr húsinu á Suðurnesjum. Margir eru veikir en braggast fljótt með réttri umönnun. Ásdís hvetur aðra til að taka að sér ketti á við Emblu sem koma úr erfiðum aðstæðum. 

„Þú værir að taka inn einhvern sem veitir þér endalausa ást ef þú gefur honum tækifæri til þess og það er svo yndislegt að koma heim og einhver tekur á móti manni sem er endalaust þakklátur fyrir það sem hann fékk. Maður finnur mjög vel fyrir því.“

Ásdís hvetur einnig sveitarfélögin til að styðja betur við bakið á sjálfboðaliðum og félögum sem bjarga dýrum úr slæmum aðstæðum. 

„Ragnheiður í Kisukoti fær ekki neitt frá bænum en hún hefur bjargað fullt af köttum, öllum köttum sem hún getur en hún fær engan stuðning nema þann sem hún leitar eftir hjá fólki. Ég get ímyndað mér að þetta sé svipað í Reykjavík. Hvað á maður að gera? Eigum við bara að skilja kettina eftir á götunni? Eða á bara að lóga þessum 100 köttum? Skipta þeir engu máli?“

Upplýsingar um Kisukot á Akureyri má finna með því að smella hér.

Upplýsingar um Félagið Villiketti á höfuðborgarsvæðinu má finna með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert