Sig sem mældist í Vestmannaeyjum á sér aðrar skýringar

Sigið sem mældist orsakaðist að öllum líkindum af óhreinindum á …
Sigið sem mældist orsakaðist að öllum líkindum af óhreinindum á GPS mælitækjunum. mbl.is/Árni Sæberg

Tveggja cm sig mældist í Vestmannaeyjum í síðustu viku en hefur nú gengið tilbaka. Náttúruvásérfræðingur á Veðurstofu Íslands segir við mbl.is að líklegast hafi einhver óhreinindi safnast saman tímabundið á GPS loftnetinu.

Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd varð sigið á aðeins fimm dögum. „Eins og sjá má á tímaröðinni þá lítur út eins og það hafi orðið skyndileg færsla, upp á 2 cm sig, sem gengið hefur til baka á síðustu tveimur dögum. Svona skyndilegt stökk í GPS tímaröðum má oftast rekja til þess að óhreinindi sanfast tímabundið á GPS loftneti, trufla merkið og valda óraunverulegri hreyfingu,“ segir Hildur María Friðriksdóttir, náttúruvásérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Myndin sýnir stökkið í lóðrétta þættinum á GPS stöðinni í …
Myndin sýnir stökkið í lóðrétta þættinum á GPS stöðinni í Vestmannaeyjum í aðeins meiri smáatriðum. Tímaröðin gefur einn punkt fyrir hvern dag og nýjasti punkturinn er sá græni sem gefur okkur staðsetningu tækisins þann 17. júlí.

„Svona truflun í GPS merkjum á sér oftast stað þegar ísing safnast saman á loftneti yfir vetrartímann og gengur til baka þegar ísinn bráðnar. Ekki telst líklegt að ísing sé sökudólgurinn í þessu tilfelli, enda er hásumar, en þetta er með vissu ekki hreyfing tengd jarðeðlisfræðilegum atburðum því 2 cm sig sem gengur svo til baka á nokkrum dögum telst heldur óvenjulegt,“ segir Hildur María.

Þá bendir Hildur María á að engin önnur jarðeðlisfræðileg gögn bendi til þess að eitthvað óvenjulegt sé að eiga sér stað í Vestmannaeyjum. Það sé því faglegt mat sérfræðings að þetta hafi verið einhvers konar óhreinindi sem hafi safnast saman tímabundið á GPS loftnetinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert