Vegagerðin fjarlægði skiltin

Skiltið komið upp á pall hjá bíl Vegagerðarinnar.
Skiltið komið upp á pall hjá bíl Vegagerðarinnar. Ljósmynd/Atli Már

Vegagerðin hefur tekið niður skilti „Stopp hingað og ekki lengra!“-hóp­sins sem sett voru upp hvort sínu megin við Reykjanesbrautina í gær til þess að vekja athygli á umferðaróhöppum á vegakafla brautarinnar.

Í samtali við mbl.is segir Atli Már Gylfason, einn aðstandenda hópsins, að hópnum hefði verið tilkynnt um að starfsmenn Vegagerðarinnar hefðu tekið skiltin niður í þann mund sem þeir gengu á fund innanríkisráðherra og iðnaðar- og viðskiptaráðherra í innanríkisráðuneytinu klukkan ellefu í morgun.

„Stopp hingað og ekki lengra!“-hópurinn setti upp varúðarskilti við Reykjanesbrautina …
„Stopp hingað og ekki lengra!“-hópurinn setti upp varúðarskilti við Reykjanesbrautina í gær. Ljósmynd/Atli Már

„Vegagerðin sendi mann í morgun sem tók skiltin niður. Þau eru núna komin á umráðasvæði Vegagerðarinnar í Hafnarfirði,“ segir Atli Már. Hann segir framkvæmdahópinn nú vinna að því að sækja skiltin og búnaðinn sem notaður var til þess að halda skiltunum uppi.

Atli Már segir að á fundinum hafi ráðherrarnir verið allir af vilja gerðir til þess að útvega leyfi til þess að hafa skiltin uppi en fyrirtæki í Reykjanesbæ styrkti hópinn til skiltagerðarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert