Vekur siðferðilegar spurningar

Stuðningsmenn Elliða Vigfússonar, bæjarstjóra í Eyjum, vilja sjá hann leiða …
Stuðningsmenn Elliða Vigfússonar, bæjarstjóra í Eyjum, vilja sjá hann leiða lista sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi. mbl.is/Árni Sæberg

Sú ákvörðun Páleyjar Borgþórsdóttur, lögreglustjóra í Eyjum, að senda fjölmiðlum yfirlýsingu fyrir hönd stuðningsmanna Elliða Vignissonar bæjarstjóra, vekur siðferðilegar spurningar að mati Evu Marínar Hlynsdóttur, lektors í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands.

Páley sendi yfirlýsinguna á fjölmiðla í gær, úr persónulegu netfangi sínu, en þar var gerð grein fyrir niðurstöðum skoðanakönnunar undir yfirskriftinni: „Yfirburðastaða Elliða Vignissonar í Suðurkjördæmi.“

Frétt mbl.is: Elliði nýtur 61% stuðnings

Stuðningsmenn Elliða vilja sjá hann leiða lista sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi í næstu þingkosningum og segir Eva Marín Páleyju vissulega hafa fullt tjáningarfrelsi og rétt á sínum skoðunum. „Það er ekki hægt að segja að hún megi ekki gera þetta, en þetta er á gráu svæði,“ segir hún og bætir við að málið veki siðferðlegar spurningar.

„Þarna er hún búin að taka afstöðu með einhverjum ákveðnum stjórnmálamanni; hún sem á ekki að vera að taka pólitískar ákvarðanir heldur ákvarðanir byggðar á faglegum og lagalegum grundvelli,“ segir Eva Marín. Almenningur eigi að geta treyst því að embættismenn séu hlutlausir. „Að ég tali nú ekki um embættismenn innan löggæslunnar, þeir eiga að vera fullkomlega hlutlausir og faglegir og ákvarðanir þeirra byggðar á þeim grundvelli.“

Páley hafi því gefið á sér höggstað með því að senda út yfirlýsinguna. „Það er auðvelt að fara að líta aðrar aðgerðir hennar með pólitískum gleraugum,“ segir Eva Marín og kveðst þó ekki vera að væna Páleyju um hlutdrægni.

Öll tengsl embættismanna við stjórnmálaarminn veki hins vegar efasemdir um hlutleysi. „Um leið og við erum farin að sjá mikil tengsl á milli fólks sem er í þessum embættum smitast yfir í pólitíkina vekur það alltaf spurningar. Þess vegna er æðstu embættismönnum stjórnsýslunnar líka yfirleitt ráðlagt að halda sig til hlés í opinberri umræðu, einfaldlega vegna þess að þetta setur þeirra stöðu svolítið í uppnám.“

Hún segir þetta mál þó gott dæmi um það hvernig íslenska stjórnsýslan virkar. „Við erum svo fá og búum í svo miklu kunningjasamfélagi. Það er svo stutt á milli embættismannanna og stjórnmálamannanna að það er ekkert hægt að komast hjá þessum tengslum. En þá þurfum við kannski líka að velta fyrir okkur hvort við þurfum ekki að fara ennþá varlegar og vanda okkur enn meira en ef fjarlægðin væri meiri.“

Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum.
Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum.
mbl.is