MAST veitir ekki upplýsingar

Ljósmynd/Villikettir

Villiköttum hafa borist fregnir af því, að í kjölfar eftirlitsferðar Matvælastofnunar, hafi eiganda hundraðkattanna verið veittur 20 daga frestur til viðbótar til að losa sig við dýrin. Matvælastofnun getur ekki staðfest þetta en segir málið vera í vinnslu. 

Eigandi hafði áður fengið frest til föstudagsins 15. júlí  til að losa sig við kettina en á heimilinu eru ennþá á milli 30-40 kettir og þrír hundar. Villikettir hafa ekki fengið viðbrögð MAST við tilboði sínu og sendu stofnuninni ítrekun vegna þessa í gær.

Tjá sig ekki um stöðu málsins

Matvælastofnun getur ekki staðfest að eiganda hafi verið veittur 20 daga viðbótarfrestur en í samtali viðmbl.is vísaði Konráð Konráðsson, héraðsdýralæknir Suðvesturumdæmis, til upplýsingastefnu MAST. Samkvæmt stefnunni veitir stofnunin ekki upplýsingar um mál sem þessi á meðan þau eru í vinnslu.

Ljósmynd/Villikettir

Konráð segir stofnunina fylgja lögum og þeim úrræðum sem lögin bjóða upp á í tilvikum sem þessum. „Þar segir meðal annars að Matvælastofnun geti komið dýrunum fyrir og þá reynum við það auðvitað,“ segir Konráð. Eftir hvaða aðferðum það er gert er metið hverju sinni. Þá ítrekar Konráð að það sé engin stefna MAST að aflífa dýr ef til vörslusviptingar kemur.

„Ef það eru til dæmis dýravinir sem eru tilbúnir til þess að koma til aðstoðar í því, þá leitum við þeirra hjálpar,“ segir Konráð jafnframt. Spurður segir hann stofnunina þó ekki ætlast til eins eða neins af dýravinum og félagasamtökum um dýravernd, en vissulega sé jákvætt ef þau geta starfað saman. „Þannig það er afskaplega gott að vita af slíkum félagsskap,“ segir Konráð, en með aðstoð góðra dýravina hefur köttunum áður verið komið fyrir á heimilum.

Telja skorta úrræði

Villikettir undrast úrræðaleysi Matvælastofnunar og telja löngu tímabært að unnið verði ferli sem hægt er að styðjast við þegar mál sem þessi koma upp. Bæði starfsfólk Matvælastofnunar og dýravinasamtök séu öll að vilja gerð til að leysa málin en það þarf að liggja fyrir hvernig að því er staðið.

Villikettir telja ekki rétt að þau, né önnur dýraverndunarfélög, þurfi að bera uppi allan þann kostnað og umstang sem mál sem þessi hafa í för með sér. Sú stofnun sem fer með málaflokkinn má ekki fría sig ábyrgð, vitandi að dýravinir muni grípa inn í. 

Líkt og komið hefur fram gefur Matvælastofnun ekki upplýsingar um hvar málið stendur að svo stöddu. Það kemur í ljós þegar málið er klárað að hálfu stofnunarinnar sem ekki er ljóst hvenær verður.

mbl.is