Hljómsveitirnar Agent Fresco, Dikta, Emmsjé Gauti, GKR, Retro Stefson, Sturla Atlas og Úlfur Úlfur munu koma fram á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum í ár. Sú niðurstaða fékkst eftir fund tónlistarmannanna Unnsteins Manúels Stefánssonar og Emmsjé Gauta, Elliða Vignissonar, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum og aðila úr þjóðhátíðarnefnd.
Í tilkynningu sem þau sendu frá sér er þess krafist að lögregluumdæmin samræmi upplýsingagjöf hvað kynferðisbrot varðar með það að leiðarljósi að skila skömminni til þeirra sem eiga að bera hana, gerenda.
Á fundinum hafi farið fram hreinskilin umræða með það að markiði að setja niður deilur og snúa bökum saman. Ákveðið hafi verið að grípa til bæði táknrænna og raunverulegra aðgerða til að stemma stigu við nauðgunum á útihátíðum.
Aðstandendur Þjóðhátíðar ætla nú í samvinnu við bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum að efna til átaks til að vekja þjóðhátíðargesti til vitundar um alvarleika kynferðisbrota. Þjóðhátíðarnefnd mun skipa starfshóp sem marka mun stefnu til næstu fimm ára um hvernig standa megi enn betur að forvörnum gegn kynferðisbrotum á hátíðinni.
Þá munu listamenn, björgunarsveitir og aðrir gæsluaðilar á hátíðinni taka þátt í táknrænni athöfn vegna fyrrnefnds átaks á föstudagskvöldinu á hátíðinni og með því marka nýtt upphaf og vonandi eina skemmtilegustu og best heppnuðu Þjóðhátíð frá upphafi, segir í tilkynningunni.