„Við getum ekki tekið lögregluna í gíslingu“

Unnsteinn Manúel segir listamennina hafa fundið fyrir miklum vilja frá ...
Unnsteinn Manúel segir listamennina hafa fundið fyrir miklum vilja frá Vestmannaeyjabæ og Þjóðhátíðarnefnd til að gera betur í málaflokknum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fulltrúar listamanna, þjóðhátíðarnefndar og bæjaryfirvalda í Vestmannaeyjum funduðu í hádeginu með það að markmiði að setja niður deilur og snúa bökum saman. Ákveðið var að grípa til bæði táknrænna og raunverulegra aðgerða til að stemma stigu við nauðgunum á útihátíðum.

Frétt mbl.is: Sveitirnar spila á Þjóðhátíð

„Auðvitað hefðum við viljað að lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum myndi haga upplýsingaskyldu sinni eins og aðrir lögreglustjórar í landinu en það er ekki eitthvað sem við stýrum. Sú staðreynd að þau voru tilbúin til að taka þessa umræðu er heilmikill sigur fyrir okkur,“ segir Unnsteinn Manuel Stefánsson, forsprakki hljómsveitarinnar Retro Stefson, sem var ein þeirra sveita sem lýstu yfir í gær að þær hygðust draga sig úr dagskrá Þjóðhátíðar nema skýr stefnubreyting kæmi frá bæjaryfirvöldum og lögreglu í Vestmannaeyjum vegna orðræðu og verklags lögreglustjórans hvað varðar upplýsingagjöf um kynferðisofbeldi á hátíðinni. Hann bætir við að listamennirnir séu sáttir við stöðu mála og hlakki til að spila á Þjóðhátíð.

„Við getum ekki tekið lögregluna í gíslingu og stýrt því hvernig hún vinnur. Háværasta krafa okkar er að lögreglustjórar í landinu samræmi verklag sitt varðandi upplýsingaskyldu. Það er í raun og veru okkar áskorun á innanríkisráðherra,“ segir Unnsteinn.

Hann segir listamennina hafa fundið fyrir miklum vilja frá Vestmannaeyjabæ og þjóðhátíðarnefnd til að gera betur í þessum málaflokki. „Nú verður hrint af stað átaki gegn kynferðisofbeldi. Í því felst að stofna starfshóp til næstu fimm ára sem markar stefnu í þessum málum og þar hefur verið óskað eftir fulltrúa frá Stígamótum,“ segir Unnsteinn.

mbl.is