Vinstri beygju við Reykjanesbraut lokað

Reykjanesbrautin. Mynd úr safni.
Reykjanesbrautin. Mynd úr safni. mbl.is

Vegagerðin vinnur nú að lokun vinstri beygju frá Hafnavegi upp Reykjanesbraut í átt að Grænás. G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir starfsmenn Vegagerðarinnar hafa mætt á staðinn fyrir hádegi og hafið að loka beygjuakreininni.

Að sögn G. Péturs hefur staðið til að loka beygjuakreininni í nokkurn tíma og átti að loka henni á sama tíma og framkvæmdir stóðu yfir við gerð hringtorgs við Fitjar. Ákveðið var þó að fresta lokuninni þar sem of langt var komið inn í veturinn. 

Hópurinn Stopp, hingað og ekki lengra hefur barist fyrir því að vinstri-beygjunni yrði lokað samstundis auk annarra samgöngubóta á Reykjanesbrautinni.

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar.
G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar. mbl.is

„Það stendur til að gera undirgöng þarna og það þótti ekki rétt að setja upp eyjur og kantsteina til að koma í veg fyrir að menn geti beygt þegar það yrði rifið strax aftur,“ segir G. Pétur.

Hann segir Vegagerðina hafa gefið það út að ráðist yrði í lokun vinstri-beygjunnar um leið ef framkvæmd undirganganna frestaðist eitthvað, en menn hafi svo ákveðið að bíða ekkert lengur með að loka beygjuakreininni og einfaldlega ráðist í verkið.

Á ósamþykktri samgönguáætlun fyrir 2017 og 2018 eru framkvæmdir á Krísuvíkurgatnamótunum sem G. Pétur segir að hefjist á næsta ári. Þar er um að ræða gerð mislægra gatnamóta hjá álverinu í Straumsvík auk tvöföldunar vegarins þaðan og inn í Hafnarfjörð.

mbl.is