Heyrði fyrst af áformunum í fréttum

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra. mbl.is/Styrmir Kári

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segist fyrst hafa heyrt af áformum MCPB ehf. um að reisa stórt sjúkrahús og hótel í Mosfellsbæ í fréttum í vikunni. Hann hafi ekki átt í neinum viðræðum við fyrirtækið.

Eins og kunnugt er samþykkti bæjarráð Mosfellsbæjar í vikunni að undirrita lóðarsamning við félagið, sem er að mestu í eigu Burbanks Holding BV í Hollandi. Forsvarsmenn félagsins hafa unnið að undirbúningi verkefnisins um skeið, en uppbygging og rekstur spítalans verður í samstarfi við spænska hjartalækninn dr. Pedro Brugada.

Kristján Þór var gestur Páls Magnússonar í útvarpsþættinum Á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Spurður hvort ákvörðun um nýjan einkaspítala væri ekki pólitísk ákvörðun heilbrigðisráðherra sagði Kristján Þór það af og frá. Samkvæmt lögum væri það ekki og það væri hreinn barnaskapur að láta sér detta það í hug að stór ákvörðun sem þessi væri tekin í tuttugu mínútna viðtalstíma í heilbrigðisráðuneytinu.

Málið væri af þeirri stærðargráðu að ræða þyrfti það í ríkisstjórn, faginu og á þingi. „Þetta er grundvallaratriði.“

Hann sagði að hugmyndir um að Íslendingar gætu greitt sig þarna inn væru sér ekki að skapi. Ekki ætti að mismuna á grundvelli efnahags í heilbrigðiskerfinu. Ef menn vildu kalla hann sósíalista fyrir þær skoðanir sínar, þá ættu þeir bara að gera það.

Hann bætti auk þess við að lögin segðu nákvæmlega fyrir um það hvaða formlegu leiðir ætti að fara, hefðu menn í hyggju að setja á stofn heilbrigðisrekstur. Hann benti á að réttur manna til að skapa sér atvinnu í landinu væri fyrir hendi og auk þess stjórnarskrárvarinn.

„En ef slík atvinnuppbygging er farin að ógna með einhverjum hætti eða setja í hættu innviði samfélagsins, heilbrigðisþjónustu í þessu tilviki, er ósköp eðlilegt og sjálfsögð krafa að heilbrigðisyfirvöld stígi inn í það mál,“ sagði heilbrigðisráðherra.

Frétt mbl.is: Munu reisa 30.000 fermetra hús

mbl.is