„Hún var allt of stutt hjá okkur“

Andri Þór Sigurjónsson.
Andri Þór Sigurjónsson. Ljósmynd/Aðsend

Þann 14. maí á þessu ári fæddist Karen Björg Andradóttir andvana eftir 40 vikna meðgöngu. Foreldrar Karenar, þau Andri Þór Sigurjónsson og eiginkona hans, Anna Helga Ragnarsdóttir, fengu þó að hafa Karen lengur hjá sér þökk sé kælivöggu sem styrktarfélagið Gleym-mér-ei gaf kvennadeild Landspítalans. Til að sýna fram á þakklæti ætlar Andri Þór að hlaupa 21 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu fyrir styrktarfélagið.

„Við fengum sem sagt að vera með Karen hjá okkur aðeins lengur,“ segir Andri Þór í samtali við mbl.is en kvöldið 13. maí fór Anna í skoðun á Landspítalanum eftir að hafa orðið vör við minni hreyfingar. Í ljós kom að Karen Björg hafði dáið í móðurkviði. 

„Hún var allt of stutt hjá okkur en við fengum að hafa hana yfir nótt og alveg á sunnudeginum,“ segir Andri en þannig gafst Jóhönnu Bryndísi, fjögurra ára stóru systur, einnig tækifæri til að sjá litlu systur sína, kveðja hana og teikna fyrir hana mynd. 

Gleym-mér-ei gleymd 

Andri segir að ekki sé hægt að lýsa því hversu mikla þýðingu það hafði fyrir fjölskylduna að eiga þess kost að hafa Karen hjá sér lengur.

Andri Þór ásamt dóttur sinni Jóhönnu Bryndísi.
Andri Þór ásamt dóttur sinni Jóhönnu Bryndísi. Ljósmynd/af heimasíðu Hlaupastyrks

 „Maður vissi ekkert af þessu félagi fyrr en maður fer í þessar aðstæður,“ segir Andri sem er þakklátur fyrir vögguna frá Gleym-mér-ei. „Þetta eru svolítið gleymd samtök þannig lagað séð,“ segir Andri, en nú vill hann gefa til baka. 

Gleym-mér-ei heldur utan um sjóð sem notaður er til að styrkja ýmis málefni í tengslum við missi barns á meðgöngu og í eða eftir fæðingu auk þess að halda minningarathöfn sem tileinkuð er missi á meðgöngu og barnsmissi ár hvert.

„Ef ég get hjálpað einhverjum sem lendir í sömu sporum og ég með því að hlaupa einhverja létta 21 kílómetra og skaffa smá pening fyrir samtökin þá er markmiðinu náð,“ segir Andri, þakklátur þeim sem höfðu áður lagt styrktarfélaginu lið.

Ástæða til að segja takk

Andri tekur þátt í Reykjavíkurmaraþoninu í þriðja sinn í ár og lá beinast við að hlaupa fyrir Gleym-mér-ei í ljósi lífsreynslu fjölskyldunnar. „Þarna var bara ástæða til þess að segja takk við þessi samtök,“ segir Andri.

Andlát Karenar hefur reynst fjölskyldunni erfitt og hefur einnig tekið á vini þeirra og stuðningsnetið allt. Fjölskyldan hefur fundið fyrir miklum stuðningi og meðbyr á þessum erfiðu tímum og er Andri ákaflega þakklátur fyrir allan þann stuðning. Áheitasöfnunin hefur farið vel af stað en þegar hefur safnast yfir hálf milljón króna.

Reykja­vík­ur­m­araþon Íslands­banka fer fram 20. ág­úst næst­kom­andi. Hægt er að heita á Andra Þór í gegn­um heimasíðu Hlaupa­styrks.

mbl.is