Katrín Tanja er sigurvegari heimsleikanna

Katrín Tanja er sigurvegari heimsleikanna 2016.
Katrín Tanja er sigurvegari heimsleikanna 2016. Ljósmynd/Berglind Sigmundsdóttir

Ísland átti tvo íþróttamenn á palli á heimsleikunum í crossfit í kvöld því Katrín Tanja Davíðsdóttir fór með sigur af hólmi og Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir náði þriðja sæti.

Þetta varð ljóst þegar síðustu keppni leikanna lauk nú í kvöld. Í henni var keppt í svokölluðu „pegboard ascents“, þar sem keppendur hafa nokkurs konar pinna, sem þeir stinga í holur á vegg og klifra þannig upp hann, og „thrusters“, sem er hnébeygja og axlapressa í sömu hreyfingu.

Katrín náði ekki að ljúka við þrautina. Því náði Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir ekki heldur.

Fyrir lokadaginn var Katrín í öðru sæti, en eftir fyrstu þrautir dagsins hafði hún náð toppsætinu. Ragnheiður Sara var í því þriðja. Tia-Clair Toomey, sem var í öðru sæti þegar síðasta þrautin hófst, kláraði hana á fínum tíma ólíkt íslensku hetjunum.

Ljóst var að Ragnheiður hafði ekki náð að hífa sig upp í annað sætið en átti enn möguleika á því þriðja. Tók við löng bið eftir að komast að því hvort þær hefðu tryggt sér nógu mörg stig til að halda stöðum sínum eftir hinar þrautirnar.

Þegar loksins var tilkynnt að Katrín stæði uppi sem sigurvegari kraup hún niður og grét. Hún stóð þó fljótlega upp á ný og hló og veifaði áhorfendum þótt tárin héldu áfram að streyma.

„Ég er mjög ánægð, frá upphafi helgarinnar tók ég eina þraut í einu,“ sagði Katrín í viðtali eftir að úrslitin voru kynnt. „Ég nýt alls ferðalagsins og þetta hefur verið ótrúlegt.“

Þetta er í fjórða skiptið á síðustu sex árum sem fyrstu verðlaun í kvenna­flokki fara til Íslands. Katrín sigraði einnig á leikunum í fyrra og áður hafði Annie Mist Þóris­dótt­ir unnið tvisvar til verðlauna. Með sigrinum öðlaðist Katrín titilinn „hraustasta kona í heimi“. Þær eru báðar einu konurnar til þess að hafa unnið keppnina tvisvar í röð. 

Katrín hlaut alls 984 stig og var því aðeins 11 stigum ofar en Toomey. Ragnheiður Sara fékk samtals 919 stig. Annie Mist hlaut 682 stig og varð í 13. sæti. Þuríður Erla Helgadóttir hlaut 563 stig og varð í 19. sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka