Óska skýringa frá Vegagerðinni

Skiltið sem Vegagerðin er búin að setja upp við gatnamótin.
Skiltið sem Vegagerðin er búin að setja upp við gatnamótin. Skjáskot/Vefur Vegagerðarinnar

Ísak Ernir Kristinsson, einn stofnenda Facebook-hópsins Stopp, hingað og ekki lengra!, er ánægður með að Vegagerðin hafi lokað vinstri beygju af Hafnarvegi inn á Reykjanesbraut. Betur má þó ef duga skal að hans mati.

„Við vorum svolítið undrandi að sjá að það er bara búið að loka henni öðru megin því maður getur enn þá tekið vinstri beygju frá Reykjanesbraut [inn á Hafnarveg]. Við munum óska eftir skýringu hjá Vegagerðinni af hverju þetta var framkvæmt svona en vitaskuld er ánægjulegt að menn séu að minnsta kosti byrjaðir,“ segir Ísak Ernir.

Banaslys varð á gatnamótunum fyrr í þessum mánuði. Vegagerðin lokaði beygjunni síðastliðinn föstudag. Þar hafa verið sett upp skilti og steinklumpar til bráðabirgða. Í þessari eða næstu viku verða boðnar út framkvæmdir við undirgöng á þessum vegarkafla fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur.

Reykjanesbraut.
Reykjanesbraut. mbl.is/Golli

Átakanleg myndbönd

Rúmlega 16 þúsund manns eru félagar í Facebook-hópnum Stopp, hingað og ekki lengra! Þar er herferð í gangi þar sem fólk, sem hefur missti ástvin í bílslysi á Reykjanesbraut eða hefur sjálft lent þar í bílslysi, kemur fram og segir sögu sína í stuttu máli.

Tvö myndbönd eru þegar komin inn og verða þau þegar yfir lýkur vel á annan tug, að sögn Ísaks. „Þetta eru átakanleg myndbönd því sögurnar eru margar svo svakalegar. Slys á Reykjanesbraut hafa snert nánast hverja einustu fjölskyldu á Reykjanesi á einhvern hátt,“ segir hann og bætir við að baráttan fyrir því að lokið verði við tvöföldun brautarinnar sé í fullum gangi.

Vilja komast í röðina

„Okkur hefur miðað vel á þeim kafla sem er búið að tvöfalda því það hafa ekki orðið nein banaslys þar. Við viljum að framkvæmdin sem farið var af stað með verði kláruð. Við virðum að það eru önnur brýn verkefni sem bíða. Við erum ekki að ryðjast fram fyrir aðra og viljum einfaldlega fá að vera í röðinni, því við erum ekki á samgönguáætlun,“ greinir Ísak frá.

Eftir verslunarmannahelgi mun hópurinn funda með öllum þingmönnum Suðurkjördæmis og vonast Ísak eftir því að árangur hljótist af honum.

mbl.is