Fer yfir stöðuna með lögreglunni

Tveir voru færðir til yfirheyrslu í síðasta mánuði vegna Guðmundar- …
Tveir voru færðir til yfirheyrslu í síðasta mánuði vegna Guðmundar- og Geirfinnsmálsins.

„Ég á von á því að hitta lögregluna í vikunni til að fara yfir stöðuna í málinu,“ segir Davíð Þór Björgvinsson, settur ríkissaksóknari í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.

Hann segir ekkert nýtt að frétta af málinu. Verið sé að vinna úr þeim gögnum sem safnað hefur verið saman. „Það er búið að yfirheyra þessa menn sem voru handteknir og það þarf að vinna úr því og finna út hvað þarf að gera.“

Stefán Almarsson og Þórður Jóhann Eyþórsson voru handteknir og yfirheyrðir í síðasta mánuði vegna ábendingar sem barst lögreglu í málinu.

Davíð Þór Björgvinsson, settur ríkissaksóknari í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.
Davíð Þór Björgvinsson, settur ríkissaksóknari í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. mbl.is/Rax

Kemur saman í lok ágúst

Davíð Þór reiknar með því að senda endurupptökunefnd skýrslu um yfirheyrslurnar eins fljótt og kostur er en miðað er við að nefndin komi saman í lok ágúst. Þar verður Davíð einnig viðstaddur ásamt talsmönnum þeirra sem hafa beðið um endurupptöku í málinu.

Búist er við að endurupptökunefnd komist að niðurstöðu um hvort Guðmundar- og Geirfinnsmálið verði tekið upp á nýjan leik í október eða nóvember.

mbl.is