Munu ekki yfirgefa kisurnar

Svali kisi hefur þegar fengið heimili. Enn eru nokkrar kisur …
Svali kisi hefur þegar fengið heimili. Enn eru nokkrar kisur sem vantar varanlegt heimili. Ljósmynd/Villikettir

Villikettir hafa ekki enn fengið svör frá Matvælastofnun vegna úrræðis sem þeir lögðu til í máli hundraðkattanna. Vegna sumarleyfa þeirra sem hafa með málið að gera hjá stofnuninni reynist erfitt að fá svör vegna málsins. Villikettir hyggjast þó ekki sitja aðgerðalausir hjá og munu halda áfram að fara með mat og kattasand í húsið svo þeir líði ekki skort.

Frétt mbl.is: MAST veitir ekki upplýsingar

Þrátt fyrir að Villikettir ætli að sinna köttunum áfram vilja þeir ekki að Matvælastofnun sé laus allra mála. Eftir þeirra bestu vitneskju hefur stofnunin fá úrræði önnur en þau að treysta á dýravini og dýraverndunarsamtök ef ekki á hreinlega að lóga dýrunum.

„Þetta fjallar ekki bara um gærdaginn, þetta fjallar um morgundaginn líka og okkur finnst svo mikilvægt að það verði gert einhvers konar ferli,“ segir Arndís Björg Sigurgeirsdóttir hjá Villiköttum við mbl.is.

Hún segir jafnframt að ef Villikettir hefðu ekki gripið inn í fyrir nokkrum mánuðum væru líklega fjölmargir kettir dauðir úr vosbúð og veikindum auk þess sem margir kettlingar hefðu bæst í hópinn. Þá telur hún að kettirnir hafi ekki verið fleiri en raun bar vitni, þótt margir hafi verið, vegna mikils kettlingadauða.

„Við munum ekkert fara frá þessum kisum,“ segir Arndís, en það kostar sitt. Villikettir eru viljugir að halda áfram með málið og hafa notið stuðnings bæði einstaklinga og fyrirtækja en erfitt er að vita hvað verður meðan ekki fást svör frá MAST.

Í húsinu eru ennþá 30-40 kettir en Villikettir hafa komið um 80 til bjargar. Ennþá vantar einhverjar fullorðnar kisur framtíðarheimili en allir kettlingarnir sem Villikettir tóku við hafa þegar fengið varanlegt heimili.

Frétt mbl.is: 25 ketti vantar framtíðarheimili

Málið er sem fyrr segir í vinnslu hjá Matvælastofnun sem getur að svo stöddu ekki greint frá stöðu þess. Villikettir hafa ítrekað að ekki sé við starfsfólk MAST að sakast heldur kerfið sem slíkt. Úrræðaleysi þeirrar stofnunar sem fer með velferð dýra sé áhyggjuefni. 

mbl.is