Tengja fólk við náttúruna

Minkurinn, nýtt smáhjólhýsi, er hugmynd sem þeir Kolbeinn Björnsson og Ólafur Sverrisson fengu fyrir tveimur árum og stefna á að koma með á markað næsta sumar. Þeir félagar ætla að byrja á íslenskum markaði en eru með stórar hugmyndir fyrir litla hjólhýsið.

Minkurinn vegur um 500 kíló, er hannaður af sænska hönnunarfyrirtækinu Jordi Hans Design og rúmar auðveldlega tvo fullorðna. Lítil koja er inni í hýsinu sem hægt er að nýta sem gistipláss eða hillu. Að aftan er svo kælibox, hillupláss og gaseldavél. Panorama-gluggi er í þakinu og farið er inn og út um stór kýraugu. Kynding er frá Webasto, þráðlaust net verður í vagninum, hljóðkerfi frá Bose og dýnurnar og rúmföt eru valin í samstarfi við Hastens í Svíþjóð.

Svefn í forgangi

Kolbeinn hefur verið búsettur í San Francisco í Bandaríkjunum síðustu sex ár að vinna í nýsköpunargeiranum, aðallega í gönguróbótum og hátækni. „Fyrir tveimur árum kviknaði hugmynd um að skoða ferðaiðnaðinn á Íslandi. Tvö stærstu vandamálin í honum eru gisting úti á landi og dreifing ferðamanna um landið,“ segir hann. „Við sáum því möguleika að láta hanna fyrir okkur lítinn gistivagn. Við gerðum fjölmargar frumhugmyndir og módel sem endaði sem Minkurinn. Hann er öðruvísi í laginu en margt sem er í gangi í þessum geira og býður upp á hönnun sem er í anda Norðurlanda. Þegar fólk fer út í náttúruna þá einfaldar það lífið eins mikið og hægt er. Hönnunin tekur mið af því. Við setjum góðan svefn, mat, þægindi og einfaldleika í forgrunn en annað víkur. Við viljum tengja fólk við náttúruna og leysa stór vandamál með einföldum hætti.“

Í sátt við náttúru og menn

Þeir félagar hafa gengið frá samningi við Bílaleigu Akureyrar og verður hægt að leigja Minkinn þar með bílaleigubílum næsta sumar. Þá ætla þeir að vinna með ferðaþjónustubændum þar sem hægt verður að gista á landareigninni og leysist því hreinlætisaðstaðan af sjálfu sér. „Það eru fjölmargir glæsilegir staðir úti á landi sem bjóða upp á ótrúlega upplifun og afþreyingu. Þannig viljum við að ferðamenn upplifi landið, í sátt og samlyndi við náttúru og menn.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »