Falleg og góð stund með ráðherra

Leigubílum var lagt í langri röð við gatnamótin.
Leigubílum var lagt í langri röð við gatnamótin. Ljósmynd/Eyþór Sæmundsson/Víkurfréttir

„Þetta var falleg stund og góð,“ segir Valur Ármann Gunnarsson, talsmaður leigubílstjóra á Suðurnesjum, sem áttu fund með Ólöfu Nordal innanríkisráðherra á gatnamótum Hafnavegar og Reykjanesbrautar í hádeginu.

„Þetta gekk mjög vel en mætingin var ekki eins góð og við vonuðum því það var bíllaust í flugstöðinni og við urðum að bjarga fólki. En við mættum eins margir og við gátum,“ segir Valur Ármann, sem telur að hátt í 20 leigubílstjórar hafi mætt á svæðið.

Leigubílstjórar af A-stöðinni óku saman í hópi frá Garði en Jóhannes Hilmar Jóhannesson, sem lést í umferðarslysi við þessi sömu gatnamót á dögunum, starfaði m.a. í afleys­ingum sem leigubíl­stjóri á stöðinni.

Steinþór Jónsson, formaður Félags íslenskra bifreiðaeigenda, var einnig á staðnum.

Frétt mbl.is: Leigubílstjórar skora á ráðherra

Innanríkisráðherra á Reykjanesbraut í hádeginu.
Innanríkisráðherra á Reykjanesbraut í hádeginu. Ljósmynd/Eyþór Sæmundsson/Víkurfréttir

Ekki endalaust hægt að fórna lífi

Bílstjórarnir afhentu ráðherra áskorun um bætt samgöngumál á Reykjanesbraut, þar á meðal að lokið verði við tvöföldun brautarinnar.

„Hún lofaði því að það yrði unnið í því hörðum höndum að koma þessu inn á samgönguáætlun, þannig að hægt væri að hefja framkvæmdir hið fyrsta,“ segir Valur. „Við treystum því að það verði. Það er ekki endalaust hægt að fórna lífi vegna þess að menn eru að setja peningana í eitthvað annað.“

Þarf að forgangsraða rétt

Hann bætir við að leigubílstjórar borgi háan eldsneytiskostnað á hverju ári, ásamt  almenningi í landinu. Þar sé gert ráð fyrir peningum í vegaframkvæmdir en hann sé því miður notaður í eitthvað annað. „Þannig að það er spurning um að fara að forgangsraða rétt.“

Athöfnin gekk vel fyrir sig.
Athöfnin gekk vel fyrir sig. Ljósmynd/Eyþór Sæmundsson/Víkurfréttir

Grátlegt að ljóðið eigi enn við

Valur flutti gamalt, frumsamið ljóð á fundinum þar sem hann setti sig í spor þeirra sem hafa látist á Reykjanesbrautinni. Ljóðið var áskorun til samgöngumálaráðherra þess tíma. „Þeim þótti mikið til koma að heyra þetta ljóð og voru sammála mér um það sé grátlegt að það skuli enn þá eiga við eftir öll þessi ár.“

Hér má lesa ljóðið:

Í minningu látinna

Um Reykjanesbrautina átti ég leið
um hana ek reyndar bara í neyð.
Suðaustan rok og rigning var líka
lífslöngunina ég þarna fann ríka.

Að vera á ferðinni var ekkert vit
svo varnarlaus undir stýri ég sit?
á meðan sú hugsun um huga mér þaut
högg mikið rosalegt bíllinn minn hlaut.

Þarna hann pressaðist hreinlega í mauk
ljóst var að lífinu samstundis lauk
meðan að sál mín til eilífðar leið
mér leyfðist að líta yfir vettvang um skeið.

Og þar sem ég leit yfir Reykjanesbraut
sá ég þar líkama og bílhræ í graut
en hér fyrir handan ég hef margan hitt
sem reynt hefur, þetta dæmi mitt.

Hér höfum við samtökum komið á fót
sem reyna að finna á þessu bót
því skaltu samgönguráðherra sæll
sjá, hér gildir ei peningavæll.

Hafðu það hugfast ef breikkar þú braut
þá bætir þú hag og linar þraut
því þótt hún sé ekki löng þessi leið
til loka samt rann mitt æviskeið.

Reykjanesbraut.
Reykjanesbraut. mbl.is/Golli

 Áskorun leigubílstjóra til ráðherra:

„Slys gera ekki boð á undan sér en draga má úr hættu á slysum með því að bæta vegakerfi og lagfæra sérlega hættulega vegakafla.  Við vorum á sársaukafullan hátt minnt á þetta nú í byrjun júlí þegar félagi okkar Jóhannes Hilmar Jóhannesson lést í umferðarslysi á mótum Reykjanesbrautar og Hafnavegar og þar með hrifinn á brott frá unnustu og þremur ungum börnum þeirra. Líklegt er að þetta slys hefði aldrei orðið ef Reykjanesbrautin hefði á sínum tíma verið breikkuð alla leið frá Hafnarfirði að Flugstöð L.E.  

Framkvæmdir við fyrsta áfanga breikkunar hófust árið 2003 og næsti áfangi hófst 2005 og lauk árið 2008 við Fitjar í Njarðvík.  Þá voru eftir tveir kaflar frá Fitjum að Flugstöð L.E. og einnig frá Hvassahrauni til Hafnarfjarðar með mörgum stórhættulegum gatnamótum þar sem því miður hafa orðið allt of mörg alvarleg slys.

Liðin eru því átta ár frá lokum síðust breikkunarframkvæmda þó reynt hafi verið á þeim tíma að laga gatnamót á þessari leið með sértækum aðgerðum sem þó hafa hvergi reynst nægjanlega öruggar og koma aldrei í stað mislægra gatnamóta sem telja verður öruggustu gatnamótin með tilliti til þeirra gífurlegu umferðar sem um Reykjanesbrautina fer daglega.

Við leigubifreiðastjórar þurfum mörgum sinnum á dag að aka þessa leið um þessi hættulegu gatnamót og vitum því manna best hversu þörfin er brýn að ljúka þessu verki sem hefði átt að ljúka fyrir mörgum árum.  Við vitum vel að í lok árs 2008 varð hér alvarleg efnahagskreppa en hún varð til vegna mannanna verka, þeirra sem með peningastjórnum landsins fóru árin á undan.  Síðan hefur allt kapp verið lagt á að greiða niður skuldir landsins sem er góðra gjalda vert en það má ekki kosta mörg mannslíf.  Það virðist þó vera reyndin því breikkun Reykjanesbrautar frá Fitjum að Flugstöð er ekki einu sinni á samgönguáætlun til næstu ára.

Er það því eindregin áskorun okkar að hafist verði handa við breikkun þessara tveggja áfanga sem eftir eru nú þegar og verklok verði eigi síðar en í lok árs 2018.

Við skorum einnig á innanríkisráðherra að sjá til þess að veitt verði fjármagn árlega til viðhalds Reykjanesbrautarinnar þar sem djúpar rásir í henni eru ekki síður hættulegar.

Þess má geta að undirritaður sendi samgönguráðherra opið bréf,  „Í minningu látinna“, í Víkurfréttum fyrir um aldarfjórðungi síðan en þá starfaði ég sem lögreglumaður í Keflavík og hafði fengið nóg, vegna aðkomu að banaslysum og öðrum alvarlegum umferðarslysum á Reykjanesbraut.  Þetta opna bréf var í ljóðaformi þar sem ég setti mig í spor látinna eftir umferðarslys á Reykjanesbraut og á þetta ljóð, því miður, enn við í dag og fylgir því með áskorun þessari til núverandi ráðherra samgöngumála.“

mbl.is