Mála regnbogarendur á tröppur MR

Stjórn Hinsegin daga og borgarstjóri Reykjavíkur leggja grunn að regnboganum …
Stjórn Hinsegin daga og borgarstjóri Reykjavíkur leggja grunn að regnboganum á Skólavörðustíg árið 2015. ljósmynd/Hinsegin dagar

Hinsegin dagar í Reykjavík hefjast formlega á hádegi á morgun þegar stjórn hátíðarinnar og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, mála fyrstu gleðirendurnar á tröppur Menntaskólans í Reykjavík. 

Eins og kunnugt er var Skólavörðustígurinn málaður í regnbogalitunum í fyrra en í ár var ákveðið að finna nýjan stað og urðu tröppurnar fyrir valinu. Þema Hinsegin daga 2016 er „sagan okkar – saga hinsegin fólks“. Staðsetning regnbogans er því engin tilviljun enda húsakynni Menntaskólans í Reykjavík aldagömul og saga þeirra löng og litrík. Það má því segja að um sögulega stund verði að ræða þegar Gleðiganga Hinsegin daga gengur framhjá regnbogalituðum tröppum eins elsta húss miðborgarinnar.  

Stjórn Hinsegin daga skipa Eva María Þórarinsdóttir Lange - formaður, …
Stjórn Hinsegin daga skipa Eva María Þórarinsdóttir Lange - formaður, Jón Kjartan Ágústsson varaformaður, Gunnlaugur Bragi Björnsson gjaldkeri, Ásta Kristín Benediktsdóttir ritari/göngustjóri og Vilhjálmur Ingi Vilhjálmsson meðstjórnandi. ljósmynd/Hinsegin dagar

Eftir að fyrstu rendurnar verða málaðar klukkan 12 verða tröppurnar málaðar í öllum litum regnbogans af gestum og gangandi undir leiðsögn starfsmanna Reykjavíkurborgar. Stjórn Hinsegin daga hvetur gesti á öllum aldri til að mæta og taka þátt í opnun hátíðarinnar.

Hinsegin dagar eru nú haldnir í átjánda sinn og hafa vaxið og dafnað með hverju ári. Í ár standa Hinsegin dagar frá 2. til 7. ágúst og á dagskránni eru um 30 viðburðir af ýmsum toga, þar má nefna myndlistarsýningu, tónleika, dansleiki, drag- og spunasýningar og margt fleira.

Líkt og fyrri ár nær hátíðin hápunkti sínum á laugardegi með gleðigöngu og útihátíð á Arnarhóli. Undanfarin ár hafa um 70.000-100.000 gestir tekið þátt í dagskrá Hinsegin daga í tengslum við gleðigönguna og búast skipuleggjendur við miklum mannfjölda í ár enda veðurspáin góð.

mbl.is

Bloggað um fréttina