Mikil ánægja með nýjan forseta

Guðni Th. Jóhannesson gengur í Dómkirkjuna.
Guðni Th. Jóhannesson gengur í Dómkirkjuna. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Hundruð komu saman á Austurvelli til að fylgjast með formlegri embættistöku nýs forseta, Guðna Th. Jóhannessonar í dag. Andrúmsloftið við þinghúsið var þægilegt og veður gott; logn og hlýtt. Mikil ánægja virtist með nýjan forseta og tókst blaðamanni ekki að finna neinn sem ósáttur er með kjör Guðna.

Yngri muna bara Ólaf og eldri segja embættið hafa breyst

Yngra fólkið segist ekki muna eftir öðru en forsetatíð Ólafs Ragnars Grímssonar og lýst vel á breytingar, en það eldra er almennt sammála um að viðhorf þjóðarinnar til embættisins hafi breyst nokkuð. Ferðamenn sem voru viðstaddir í dag furðuðu sig síðan á lítilli öryggisgæslu.

„Mér líst ljómandi vel á daginn og Guðna“, segir Erlingur Runólfsson. Hann segir þetta fyrstu embættistökuna sem hann fylgist með, en sé þó nógu gamall til að hafa átt færi á að fylgjast með þeim öllum. Eiginkona hans fylgdist þó með embættistöku Vigdísar Finnbogadóttur, en sjálfur var Erlingur upptekinn við vinnu þann daginn, svo hann „var löglega afsakaður“.

Erlingur Runólfsson.
Erlingur Runólfsson. mbl.is/Vífill

Erlingur segist muna vel eftir fyrri forsetum. „Ég man meira að segja eftir því þegar Ásgeir var kosinn.“ Embættið hafi breyst með tímanum, líkt og þjóðfélagið og nú þurfi embættismenn að sanna sig á hverjum degi, en ekki á fjögurra ára fresti. Þá telur hann minni virðingu borna fyrir forsetanum nú. „A.m.k. datt engum í hug að gera grín að forsetanum, fyrr en bara að Spaugstofan fór að gera það.“

Katrín Magnúsdóttir og Margrét Guðmundsdóttir.
Katrín Magnúsdóttir og Margrét Guðmundsdóttir. mbl.is/Vífill

„Mér finnst þetta svo mikil tíðindi. Það er ekki búið að setja inn nýjan forseta í svo mörg ár,“ segir Katrín Magnúsdóttir, spurð hvers vegna hún sé á Austurvelli í dag. „Ég var 10 ára þegar Ólafur tók við, svo hann er forsetinn sem maður er alinn upp við.“ Þær Margrét Guðmundsdóttir segjast báðar vera hrifnar af Guðna.

Eldri maður, sem blaðamaður ræddi við, en vildi ekki koma fram undir nafni, segir þetta þriðju embættistöku forseta sem hann fylgist með. „Ég var þegar Ólafur var kosinn 1996 og þegar Kristján Eldjárn var 1968 við Þjóðminjasafnið.“ Var hann á því að athöfnin nú væru svipuð fyrri athöfnum frá sjónarhóli áhorfanda, en embættið hafi þó breyst með tímanum.

Ísak Kári Kárason og Marín Levý Árnadóttir.
Ísak Kári Kárason og Marín Levý Árnadóttir. mbl.is/Vífill

„Okkur líst ótrúlega vel á Guðna. Hann er tákn um nýja tíma,“ segja Ísak og Marín. Þau fæddust 1993 og 1992 og segjast ekki muna eftir öðru en Ólafi, en voru komin á Austurvöll í dag til að sýna sínum manni stuðning, eins og þau orðuðu það. 

Ursula og Peter frá Þýskalandi.
Ursula og Peter frá Þýskalandi. mbl.is/Vífill

Nokkuð var um ferðamenn á Austurvelli sem fylgdust með athöfninni. Ursula og Peter frá Þýskalandi hafa dvalist í tvær vikur á Íslandi og voru fyrir framan þinghúsið til að fylgjast með. Sögðu þau þetta fyrsta skiptið sem þau fylgjast með slíkri embættistöku og fannst sérstakt hversu lítil öryggisgæsla er á svæðinu. „Fjarlægðin frá áhorfendum að embættismönnunum er ótrúlega lítil. Maður mundi aldrei sjá þetta svona í Þýskalandi.“

Ræðan heyrðist illa

Ræða Guðna heyrðist heldur illa á Austurvelli og þeir sem aftarlega voru misstu því af henni. Guðný og Jónas voru meðal þeirra sem heyrðu ekki ræðuna, en þau ætla að hlusta á hana heima hjá sér á eftir. Þau segja Guðna góðan og traustan mann. Spurð hvort þau hafi mætt á embættistöku fyrri forseta segjast þau hafa mætt bæði hjá Ólafi og Vigdísi. „Það er skylda fyrir okkur Reykvíkinga. Maður verður að sýna smá virðingarvott.“

Fjöldi kom saman á Austurvelli í dag.
Fjöldi kom saman á Austurvelli í dag. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Þeir viðmælendur sem mbl.is ræddi við og heyrt höfðu ræðuna sögðu hana góða. „Það skein út úr manninum hver hann er í ræðunni,“ sagði kona á besta aldri.

Pokémon-þjálfarar hylltu forsetann

Pokémon-þjálfarar virtust fjölmenna á Austurvöll í dag í von um góða veiði í smáforritinu Pokémon Go. Þeir þjálfarar sem mbl.is ræddi við sögðu allt krökkt af Pokémonum á svæðinu, en Pokémon-stöðvar eru víða í miðbænum, meðal annars við styttuna af Jóni Sigurðssyni.

Þá höfðu einhverjir sett upp svokallaðar Pokémon-gildrur við þær stöðvar, en þær laða að fleiri Pokémona, sem aðrir þjálfarar njóta góðs af og geta fangað.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert