Ný forsetafrú glæsileg í skautbúningi

Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid voru glæsileg við komuna …
Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid voru glæsileg við komuna í Alþingishúsið. mbl.is/Júlíus

Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid kona hans veifuðu fjölmennum hópi gesta á Austurvelli er þau mættu í alþingishúsið.

Skautbúningurinn sem Eliza Reid forsetafrú klæðist við embættistökuna er einkar glæsilegur og tilheyrði tveimur forverum hennar. Hann er samsettur úr tveimur skautbúningum.

Annars vegar er treyjan frá frú Dóru Þórhallsdóttur, eiginkonu Ásgeirs Ásgeirssonar, fyrrverandi forseta Íslands, en hún er saumuð 1952. Hins vegar er pilsið frá frú Halldóru Eldjárn, eiginkonu Kristjáns Eldjárns, fyrrverandi forseta Íslands.

Það var Jakobína Thorarensen (1905-1981) sem baldýraði borðana á treyjunni með gullþræði sem enn er gljáandi og fallegur og er munstrið sóleyjarmunstur sem Sigurður Guðmundsson málari teiknaði.

Elísabet Einarsdóttir (1897-1985) saumaði hins vegar listsauminn neðan á pilsið, hrútaberjamunstrið sem Sigurður Guðmundsson málari teiknaði.

Það var svo Þorbjörg Jónsdóttir (1889-1976) sem saumaði búninginn, bæði treyju og pils, en Guðmundur Helgi Guðnason gullsmiður (1884-1953) smíðaði brjóstnæluna, sprotabeltið og hnappana á ermunum.

Mikill mannfjöldi er saman kominn á Austurvelli til að fylgjast …
Mikill mannfjöldi er saman kominn á Austurvelli til að fylgjast með er nýr forseti tekur við embætti. mbl.is/Júlíus
mbl.is