BDSM á Íslandi taka þátt í Gleðigöngunni

Félagar BDSM á Íslandi verða með atriði í Gleðigöngunni í …
Félagar BDSM á Íslandi verða með atriði í Gleðigöngunni í ár. mbl.is/Ómar Óskarsson

Félagið BDSM á Íslandi verður með atriði í Gleðigöngunni í ár en árið 2014 var tekin ákvörðun um að félagið yrði ekki með og í fyrra takmarkaðist þátttaka þess við fræðsluviðburð á Hinsegin dögum.

BDSM á Íslandi varð nýverið hagsmunafélag innan Samtakanna '78 en aðild félagsins að samtökunum er mjög umdeild.

Facebook-síða BDSM á Íslandi

Að sögn Evu Maríu Þórarinsdóttur Lange, formanns Hinsegin daga, er það þó ekki þessi breyting sem liggur til grundvallar þátttöku BDSM á Íslandi í Gleðigöngunni í ár, enda eru Hinsegin dagar ekki viðburður á vegum Samtakanna '78.

Eva María segir ástæðu þátttöku félagsins nú einfaldlega byggja á því að atriði þess hafi verið úrskurðað gott og gilt, en öll atriði í göngunni verða að uppfylla ákveðin skilyrði og fara að ákveðnum reglum.

Félagar úr Trans Ísland fengu að klæðast grímum í Gleðigöngunni …
Félagar úr Trans Ísland fengu að klæðast grímum í Gleðigöngunni þar sem það þótti þjóna tilgangi atriðisins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Miklir fordómar gagnvart BDSM meðal hinsegin fólks

„Sumir voru mjög særðir þegar okkur var hafnað í fyrra,“ sagði Magnús Hákonarson, formaður BDSM á Íslandi, í samtali við vefinn Gay Iceland í júlí 2015. „For­dóm­ar eru ekki ein­angraðir við vanillu­heim gagn­kyn­hneigðra. Það eru mikl­ir for­dóm­ar gegn BDSM í sam­fé­lagi hinseg­in fólks líka og við ger­um okk­ur grein fyr­ir því að það tek­ur tíma að breyta því,“ sagði hann.

Að sögn Evu Maríu snerist ágreiningurinn um atriði BDSM á Íslandi árið 2014 að því að félagsmenn hugðust bera grímur, en hún segir það ekki hafa komið til greina þar sem gangan og Hinsegin dagar snúist um sýnileika.

Undantekning frá þessu var hins vegar gerð árið 2013, þegar félagar úr Trans Ísland komu fram í göngunni með hvítar grímur, og báru spjöld þar sem athygli var vakin á fordómum gegn transfólki á Íslandi.

Umfjöllun mbl.is um Hinsegin daga 2015

„Maður sér á umræðunni síðustu daga að það eru skiptar skoðanir á því hvort félagið eigi heima í göngunni eða ekki,“ sagði Gunnlaugur Bragi, gjaldkeri Hinsegin daga, í samtali við mbl.is í júlí í fyrra. Velti hann m.a. upp spurningunni um hversu stór regnhlífin væri í huga fólks, „hvað passar undir og hvað ekki?“

Deilur hafa staðið um hvort BDSM eigi heima undir hinsegin …
Deilur hafa staðið um hvort BDSM eigi heima undir hinsegin regnhlífinni en baráttumál þeirra sem aðhyllast BDSM skarast að sumu leyti við baráttumál annarra innan Samtakanna '78. Bæði BDSM-fólk og transfólk hafa t.d. barist fyrir því að vera afsjúkdómavædd. Ljósmynd/Grendelkhan á Wikipedia

Klofningur innan Samtakanna '78 vegna aðildar BDSM á Íslandi

Um 85 manns sögðu sig úr Samtökunum '78 í kjölfar þess að BDSM á Íslandi fékk hagsmunaaðild að samtökunum í mars sl. Niðurstaðan var afar umdeild og lét hópurinn Velunnarar Samtakanna '78 m.a. vinna fyrir sig lögfræðiálit og krafðist þess að boðað yrði til nýs aðalfundar á grundvelli þess.

Frétt mbl.is: Aðalfundur Samtakanna '78 ólögmætur

„Sam­tök­in '78 hafa lengst af verið mann­rétt­inda­sam­tök sem setja rétt­inda­bar­áttu og bar­áttu fyr­ir viður­kenn­ingu í fremsta sæti. Nú eru þau að stefna í að vera regn­hlíf­ar­sam­tök fyr­ir allskyns fjöl­breyti­leika sem get­ur verið frá­bært en ég segi fyr­ir mig að ef það er ekki sterk­ur meiri­hluti fyr­ir því að við séum að fara end­an­lega inn á þá braut þurf­um við að stoppa við og skoða mál­in bet­ur,“ sagði Margrét Pála Ólafsdóttir, stofnandi Hjallastefnunnar, í samtali við mbl.is í apríl sl. en hún sagði sig úr Samtökunum '78 í kjölfar þess að BDSM á Íslandi var veitt hagsmunaaðild.

Hún sagði tvíþætta stefnubreytingu felast í aðildinni; annars vegar að ákvörðunin hefði verið þvinguð fram með naumum meirihluta og hins vegar að ekki ríkti einhugur um að BDSM-fólk yrðu fyrir beinni mismunum á grundvelli kynhneigðar.

Frétt mbl.is: Er pláss fyrir alla undir regnhlífinni?

Boðað hefur verið til nýs aðalfundar Samtakanna '78 árið 2016 hinn 11. september nk.

Uppfært 3. ágúst 2016:

mbl.is hefur borist ábending þess efnis að samkomulag Samtakanna '78 og Velunnara Samtakanna '78, sem fól í sér boðun nýs aðalfundar, fól einnig í sér að ákvarðanir þær er teknar voru á fundum samtakanna 5. mars og 9. apríl væru ógildar.

Því virðist félagið BDSM á Íslandi ekki hafa stöðu hagsmunafélags eins og sakir standa.

mbl.is