„Fékk svona góða gæsahúð“

Þetta verður í fyrsta sinn sem forseti Íslands tekur þátt …
Þetta verður í fyrsta sinn sem forseti Íslands tekur þátt í dagskrá Hinsegin daga. mbl.is/Ómar Óskarsson

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, mun halda ræðu á Hinsegin dögum í Reykjavík að lokinni Gleðigöngunni nk. laugardag. Forsetinn mun koma fram á stóra sviðinu við Arnarhól og verður aðkoma hans að hátíðinni meðal hans fyrstu embættisverka.

„Við bara spurðum hann og hann tók svona ljómandi vel í þetta,“ segir Eva María Þórarinsdóttir Lange, formaður Hinsegin daga, um það hvernig þátttöku forseta bar að. „Hann flýgur að norðan beint til okkar og ætlar að fylgjast með hátíðinni,“ segir hún.

Það voru aðstandendur Hinsegin daga sem leituðu til Guðna fyrir rúmri viku, en þeir voru hóflega bjartsýnir þar sem Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti, hafnaði jafnan þátttöku þegar eftir því var leitað fyrstu ár hátíðarinnar.

„Þess vegna vorum við kannski mjög jákvætt hissa. Ég viðurkenni alveg að maður fékk svona góða gæsahúð,“ segir Eva María.

Guðni, sem sór embættiseið í gær, tók „ljómandi vel“ í …
Guðni, sem sór embættiseið í gær, tók „ljómandi vel“ í beiðni aðstandenda Hinsegin daga. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Hinsegin dagar hafa verið haldnir hátíðlegir frá 1999. Guðni Th. sór embættiseið í gær, 1. ágúst.

Að sögn Evu Maríu mun þátttaka forseta í þetta fyrsta sinn ekki takmarkast við ræðuhald, heldur verður regnbogafánanum flaggað við skrifstofu embættisins við Sóleyjargötu.

Hún segist ekki vita til þess að erlendir þjóðhöfðingjar hafi tekið þátt í hinsegin dögum eða gleðigöngum, en íslenska hátíðin sé reyndar sérstök að því leyti að hún er hátíð alls landsins en ekki bundin við ákveðna borg, jafnvel þótt hún heiti Hinsegin dagar í Reykjavík.

„Hillary Clinton kom fram á New York Pride veit ég, en hún er nú ekki orðin forseti ennþá,“ segir Eva María og hlær.

mbl.is