Þarf alltaf að vera á verði

Í dag njóta samkynhneigðir fullra lagalegra réttinda til jafns við …
Í dag njóta samkynhneigðir fullra lagalegra réttinda til jafns við gagnkynhneigðra. Það er af sem áður var. mbl.is/Þórður

Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segir að þó svo að samkynhneigðu fólki hafi verið tryggð sömu lagalegu réttindi og gagnkynhneigðum, þá sé enn mikið verk fyrir höndum að ryðja fordómum úr vegi og bæta félagslega stöðu samkynhneigðra, sér í lagi innan íþróttahreyfingarinnar og menntakerfisins.

Baldur hélt erindi á hádegisfundi í Iðnó í dag þar sem rætt var um sögu réttindabaráttu hinsegin fólks hér á landi. Var fundurinn hluti af dagskrá Hinsegin daga sem standa nú yfir.

Baldur segist í samtali við mbl.is hafa gert tilraun til þess að útskýra hvernig íslenskt samfélag breyttist frá því að vera eitt af hómófóbískustu samfélögum í Vestur-Evrópu í eitt það frjálslyndasta.

„Skoðanakannanir sýna að í byrjun níunda áratugarins var íslenskur almenningur einn sá hómófóbískasti í Vestur-Evrópu, en í dag hefur hann eitt jákvæðasta viðhorfið í garð samkynhneigðra. Þessi breyting er alveg stórmerkileg og einnig að hún hafi gerst með friðsamlegum hætti,“ segir Baldur.

Hann útskýrir þessa breytingu með því að setja fram þá tilgátu að frelsisbarátta samkynhneigðra hér á landi hafi í raun gengið í gegnum sex þróunarstig.

Þrúgandi þögn

„Fyrsta stigið er þögnin, hin þrúgandi þögn, þar sem opinberlega er ekki rætt um samkynhneigð. Þannig var staðan hér á landi fram að miðjum áttunda áratug síðustu aldar, þegar Hörður Torfason kom út úr skápnum í frægu viðtali við tímaritið Samúel. Það eru oft listamenn og þekktir einstaklingar sem ryðja veginn. Og á þessu stigi er mikilvægt að fá samkynhneigða til þess að tala um sínar tilfinningar við sína nánustu og fá þekkta einstaklinga úr samfélaginu til þess að tala til þjóðarinnar. Þetta átti á sínum tíma við um homma og lesbíur, en í dag á við aðra hópa hinsegin fólks,“ útskýrir Baldur.

Baldur Þórhallsson, prófessor stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.
Baldur Þórhallsson, prófessor stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Eggert

Auknar ofsóknir

Hann nefnir auk þess að svo virðist sem þegar réttindabarátta samkynhneigðra er komin á ákveðið stig, þá brjótist andstaðan oft fram í ofbeldi.

„Það virðist vera raunin víðast hvar, ekki bara hér á landi, heldur einnig erlendis. Þegar samkynhneigðir og hinsegin fólk fer að láta til sín taka - svara í rauninni fyrir sig á opinberum vettvangi - þá vex þeim ásmegin sem eru mótfallnir auknum réttindum til handa hinsegin fólks. Og þetta leiðir til aukins ofbeldis á götum úti,“ segir Baldur.

Sú hafi verið raunin hér á landi allt frá því að Hörður Torfason kom út úr skápnum um miðjan áttunda áratug alveg fram að miðjum níunda áratugnum.

Hinsegin dagar 2016 hófust formlega í gær þegar regnboginn var …
Hinsegin dagar 2016 hófust formlega í gær þegar regnboginn var málaður á tröppur Menntaskólans í Reykjavík. mbl.is/Ómar

„Og Færeyingar, frændur okkar, gengu í gegnum þetta ferli fyrir ekki svo löngu síðan, kannski tveimur, þremur eða fjórum árum. Og ég myndi segja að Rússland og Úganda væru til dæmis á þessu stigi í dag.“

Þarf alltaf að halda vöku sinni

Baldur segir að sjötta og síðasta stigið verði að veruleika þegar samkynhneigðu fólki hafa verið tryggð sömu lagalegu réttindi og gagnkynhneigðum samborgurum þess.

„En það þarf samt alltaf að vera á verði. Ég nefni sem dæmi að í þjóðaratkvæðagreiðslunni í Bretlandi um aðildina að Evrópusambandinu - þegar mikið var rætt um að takmarka þyrfti straum innflytjenda til Bretlands og draga úr því fjölmenningarsamfélagi sem Bretland væri og gera Bretland breskara - þá stórjókst ofbeldi í garð samkynhneigðra.“

Tilkynningum til lögreglunnar um ofbeldi í garð samkynhneigðra hafi fjölgað mikið og náði ofbeldið hámarki á sjálfan kosningadaginn.

„Þetta finnst mér alveg stórmerkilegt. Þetta tengist þá andstöðunni við fjölmenningu og fjölbreytileika. Og ég held að í þessu samhengi sé mikilvægt að halda alltaf vöku sinni, rétt eins og kvenréttindahreyfingar þurfa að halda vöku sinni fyrir bættri stöðu kvenna.

Mikilvægt er að tala um réttindi hinsegin fólks sem grundvallarmannréttindi …
Mikilvægt er að tala um réttindi hinsegin fólks sem grundvallarmannréttindi sem ber að virða. mbl.is/Ómar

Baráttan er mannréttindabarátta

Einnig er mikilvægt að tengja réttindabaráttu hinsegin fólks við mannréttindabaráttu og vera mjög skýr í málflutningi og segja að réttindi hinsegin fólks séu í raun ekkert annað en mannréttindi, grundvallarmannréttindi sem ber að virða.“

Þó svo að samkynhneigðir hafa nú full lagaleg réttindi, þau sömu og gagnkynhneigðir, þá gildi það sama ekki um aðra hópa hinsegin fólks. Þar er mikið verk óunnið að mati Baldurs.

Jafnframt þurfi að bæta félagslega stöðu samkynhneigðra, en í því sambandi minnist Baldur sérstaklega á íþróttahreyfinguna og menntakerfið. „Íþróttahreyfingin dregur að mínu mati enn þá lappirnar hvað þetta varðar. Hún tekur ekki fullan þátt, eins og víða erlendis, í því að vinna gegn fordómum gagnvart hommum og lesbíum innan sinna vébanda.

Það á líka eftir að vinna heilmikla vinnu innan menntakerfisins. Bara að það sé hinn sjálfsagðasti hlutur að tala um samkynhneigð þar eins og að tala um gagnkynhneigð,“ nefnir Baldur.

Baldur segir stórmerkilegt hvernig eitt hómófóbískasta samfélag í Vestur-Evrópu hafi …
Baldur segir stórmerkilegt hvernig eitt hómófóbískasta samfélag í Vestur-Evrópu hafi breyst í eitt það frjálslyndasta. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert