Hélt að það væri botnfast

Gleði. Í fiskveiðitúrnum er samt þorskur aðalaflinn, en af og …
Gleði. Í fiskveiðitúrnum er samt þorskur aðalaflinn, en af og til lúða.

„Við þurftum að vera tveir á stönginni í lokin til að ná henni inn,“ segir Daníel Jóhannsson sem veiddi lúðu í Noregi sem var 246 cm á lengd og því talið að hún sé yfir 200 kíló að þyngd. Daníel sleppti lúðunni eftir að hafa merkt hana til rannsókna og tekið myndir af sér með fengnum.

„Fyrst hélt ég að það væri botnfast hjá mér,“ segir Daníel. „En þegar ég reif í færið af öllum krafti kom smáhreyfing á þetta og ég áttaði mig á því að þetta væri kannski ekki botnfast heldur hefði vænn og fallegur fiskur bitið á hjá mér. En þegar ég var búinn að eiga við fiskinn í þónokkurn tíma var ég alveg að fara að gefast upp og bað um aðstoð hjá félögum mínum.

Fyrst sagði vinur minn að það væri alveg á hreinu að ég yrði að klára þetta, þetta væri það stór fengur að ég yrði að fá allan heiðurinn. En svo réttu þeir mér hjálparhönd til að við misstum hann ekki. Við unnum að þessu eins og góð liðsheild í lokin, eins og strákarnir okkar á EM í fótbolta, liðsheildin skiptir öllu,“ segir Daníel og hlær.

Daníel reynir að fara á hverju sumri til að veiða í Noregi, að þessu sinni voru þeir í firði nálægt Lofoten sem er rétt sunnan við Tromsö og norðan við Bodö. Þau voru tólf saman með stangir á þremur bátum og svæðið virðist kjörið fyrir fallegar lúður því að mjög stór lúða beit á hjá félaga hans en línan hjá honum slitnaði.

Íslenskur ríkisborgari en býr í Svíþjóð og veiðir lúðu í Noregi

Var ekki erfitt að sleppa svona fallegri lúðu?

„Nei, það er einmitt gaman að veiða svona fallegan fisk og sleppa honum og vita af því að hann lifi áfram. Þeir hérna um borð vilja meina að þetta sé heimsmet í svona veiða-sleppa fiskiríi. Það hafa veiðst stærri lúður en ekki fengið að lifa.“

Daníel er íslenskur ríkisborgari en fæddist í Svíþjóð og hefur búið þar nánast alla tíð fyrir utan eitt ár sem hann bjó á Íslandi. Hann segir að það sé spenna og friður í senn sem maður finni fyrir við að fiska.

Sæskrímsli. Eins og sést er þetta engin smálúða sem Daníel …
Sæskrímsli. Eins og sést er þetta engin smálúða sem Daníel Jóhannsson veiddi um helgina. Hún var tæpir 2,5 metrar á lengd og telst góður afli. Ljósmynd/Johan Mikkelsen
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert