Páll Óskar snýr aftur á Nasa

Páll Óskar kom sá og sigraði eins og alltaf í …
Páll Óskar kom sá og sigraði eins og alltaf í Gleðigöngunni þegar hann sigldi niður Gleðigönguna um borð í risastóru víkingaskipi. Í ár verður hann á einhyrningi á stærð við timburhús. mbl.is/Eva Björk

Páll Óskar Hjálmtýsson snýr aftur á Nasa næsta laugardag, að kvöldi aðal dags Hinsegin daganna, þegar hann heldur fyrsta Pallaballið að nýju rúmum fjórum árum eftir að staðnum var lokað. Hann hélt þar síðast Eurovision-tónleika í lok maí árið 2012.

 „Það er mikið tilfinningamál fyrir mig að koma þarna aftur inn, þetta er fallegasti klúbbur Íslands. Falinn demantur inn í miðri Reykjavík,“ segir Páll Óskar og bætir við að tónleikastaðnum hafi verið lokað algjörlega að nauðsynjalausu eftir að hann hélt síðustu tónleikana á sínum tíma.

„Nasa við Austurvöll er albesti salurinn á Reykjavíkursvæðinu til að halda dansleiki eða standandi tónleika. Þar er pláss fyrir allar tegundir tónlistar, það skiptir ekki máli hvaðan hún kemur; auðvelt að hafa salinn mátulega hráan fyrir rokkarana eða glimrandi glamúr fyrir svona diskóböll eins og hjá mér,“ segir Páll Óskar.

Verður með annan dansleik um miðjan september

Páll Óskar segir að almenn miðasala hefjist á föstudag í Nasa en þegar sé búið að selja fjölda miða í forsölu. „En fólk þarf ekki að örvænta ef það kemst ekki á ballið á laugardaginn því ég ætla að vera með annan dansleik á Nasa 17. september.“

mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Hann segir bestu upphitunina fyrir ballið vera að mæta á Gleðigönguna í miðbænum þar sem hann verður ríðandi á „vængjuðum silfur einhyrning á stærð við timburhús“.

„Skilaboð einhyrningsins eru í raun einföld. Ef þú ert einhyrningur, vertu þá einhyrningur. Ekki eyða orku í að fara í felur með það,“ segir Páll Óskar og bætir við að hann vildi hafa einhyrninginn vængjaðan líkt og Pegasus. „Því mörg okkar í hinsegin samfélaginu upplifum okkur sjálf á mjög ólíkan hátt, sum hafa flæðandi kynhneigð og jafnvel flæðandi kynvitund. Við viljum vera konur einn daginn og karlar hinn daginn.“

„Kyngervi okkar er líka flæðandi. Einhyrningurinn er samsettur úr mörgum ólíkum þáttum og hefur marga ólíka hæfieika: Hann er stæltur, getur hlaupið hratt og prjónað af glæsileika. Hann býr yfir ofsalega miklum krafti, getur flogið og hann getur líka stungið þig ef þú ferð í taugarnar á honum því hann er með horn,“ segir Páll Óskar og heldur áfram: „En sama hvað hann gerir þá er hann alltaf gordjöss, og hann stendur á sínu, er ekki fórnarlamb eins né neins, vill ekkert hrós og enga vorkunn.“

mbl.is