Framkvæmdir tefja Gleðigöngugesti

Framkvæmdir við Miklubrautina munu fara fram frá föstudegi til fimmtudags …
Framkvæmdir við Miklubrautina munu fara fram frá föstudegi til fimmtudags í næstu viku. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Á föstudagskvöldið hefjast framkvæmdir rétt við gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar vegna lagningar nýrrar stofnæðar vatnsveitu undir Miklubraut. Reiknað er með að framkvæmdir taki tæplega sex daga, en á þeim tíma má gera ráð fyrir töfum á umferð sem á leið hjá.

Á laugardaginn er einn af stærri hátíðadögum í Reykjavík á ári hverju þegar Gleðigangan fer fram, en gert er ráð fyrir tugum þúsunda gesta niður í miðbæ. Guðbrandur Sigurðsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir að samkvæmt upplýsingum frá arkitektastofunni sem sjái um umgjörðina verði 2 til 3 akreinar opnar meðan á framkvæmdinni stendur. Það þýðir að ein akrein sé opin í hvora átt auk einnar akreinar í viðbót í aðra hvora áttina.

Guðbrandur segir að heppilegra hefði verið ef framkvæmdin hefði klárast fyrir lok júlí eins og stefnt hafi verið á, en að nú skipti öllu að klára þetta fyrir miðjan ágúst þegar skólar fari að hefjast á ný og fólk snúi í sumarfríi.

Segir hann að það sé almannahagur að klára framkvæmdirnar við Miklubraut fyrir haustið, enda sé þar um að ræða kaldavatnslögn fyrir íbúa svæðisins og vatn í brunahana.

Hér má sjá hvernig lokun á hluta Miklubrautar verður háttað …
Hér má sjá hvernig lokun á hluta Miklubrautar verður háttað á laugardaginn. Á sama tíma má búast við að gestir í miðbænum verði um 50 þúsund. kort/Veitur

Aðspurður um aðgengi meðan á Gleðigöngunni stendur og leiðir viðbragðsaðila segir Guðbrandur að vitanlega verði truflun á umferð og umferðaflæði á þessum tíma og hvetur hann þá sem ætla að mæta niður í bæ að gefa sér góðan ferðatíma og huga að því að leggja lengra frá en alla jafna og labba í miðbæinn.

Þá hvetur hann fólk til að nota hjól og almenningssamgöngur og bendir hann á að miðað við veðurspánna tilvalið að labba. Þá segir hann lögreglu geta gripið inn í framkvæmdir eða komið með ábendingar ef hún telji eitthvað mega fara betur.

Helstu umferðaleiðir í miðbæinn meðan á laugardaginn verða ásamt Miklubraut Sæbrautin og Bústaðarvegur. Búast má við miklum fjölda á viðburðinn, en Guðbrandur segir að undanfarin ár hafi gestir verið um og yfir 50 þúsund.

mbl.is