Geta lokað á símtöl úr fangelsum

Fangelsið á Litla-Hrauni.
Fangelsið á Litla-Hrauni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Páll Winkel fangelsismálastjóri segir að ef einhverjir vilji ekki að hringt sé í þá úr fangelsi sé hægt að óska eftir því að ekki sé hringt í númerið þeirra.

Karlmaður sem hefur ítrekað brotið nálgunarbann og brottvísun af heimili stjúpdætra sinna og móður þeirra, sem jafnframt er eiginkona mannsins, hélt áfram að brjóta nálgunarbannið með því að hringja ítrekað í þær úr fangelsi þar sem hann situr nú í gæsluvarðhaldi.

Frétt mbl.is: Braut ítrekað nálgunarbann úr fangelsi

Hægt að láta loka númerum

„Almennt séð eiga fangar rétt á að eiga samskipti við umheiminn. Ef einhverjir vilja að það sé ekki hringt í þá úr fangelsinu er hægt að óska eftir því að loka númerum, samkvæmt beiðnum þeirra sem eru skráðir fyrir þeim,“ segir Páll.

Páll Winkel fangelsismálastjóri.
Páll Winkel fangelsismálastjóri. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Hann kveðst ekki geta tjáð sig um einstök mál en segir að almennt séð eigi fangar lögbundinn rétt á heimsóknum og samskiptum við umheiminn. Hann nefnir þó að þeir sem séu í einangrun hafi ekki aðgang að síma.

Hringja úr fangelsissíma

Að sögn Páls fá fangar að hringja úr sérstökum fangelsissíma og þurfa þeir ekki að gefa upp í hvaða númer þeir ætla að hringja. Þrátt fyrir það er hægt að loka ákveðnum númerum, þannig að ekki sé hægt að hringja í þau úr símanum. Stundum sé farsímum reyndar smyglað inn í fangelsi en reynt sé að fylgjast vel með öllu slíku.

Brotið í áraraðir gegn mæðgunum

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð héraðsdóms um að framlengja gæsluvarðhald yfir manninum, sem hefur ítrekað brotið nálgunarbannið, til 25. ágúst. Hann er einnig grunaður um að hafa í áraraðir brotið gegn mæðgunum með ítrekuðum kynferðisbrotum, líkamlegu ofbeldi og hótunum. Var maðurinn ákærður um miðjan síðasta mánuð og málið þingfest fyrir mánaðamót.

mbl.is