Hinsegin sokkar á Hinsegin dögum

ÚLr sokkaskúffum Huldu og Fríðu.
ÚLr sokkaskúffum Huldu og Fríðu. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Sokkarnir í troðfullri sokkaskúffu Fríðu Agnarsdóttir eru svo litríkir, furðulegir og fjörlegir að ekki kæmi á óvart þótt þeir hoppuðu upp og út á gólf og færu þar að brambolta og leika sér. Í sokkaskúffu sambýliskonunnar, Huldu Ólafsdóttur Klein, er hins vegar allt með kyrrum kjörum hjá fáeinum settlegum og yfirleitt svörtum sokkum og sokkabuxum.

„Við ætlum samt báðar að mæta í hinsegin sokkum á opnunarhátíð Hinsegin daga í kvöld,“ tilkynnir Hulda og þykir tiltækið býsna djarft hvað hana varðar – og á vitaskuld við fótabúnaðinn en ekki mætinguna á hátíðina. „En hvað gerir maður ekki í kynningarskyni,“ segir hún brosandi og skírskotar til nýstofnaðs fyrirtækis þeirra, sokkaskuffan.is, sem er netverslun með sokka af öllum gerðum og stærðum, mestanpart þó skrautlegum; hinsegin sokkum fyrir alla.

Sokkaskúffa Fríðu. Fríða hefur lengi verið heilluð af skrautlegum sokkum.
Sokkaskúffa Fríðu. Fríða hefur lengi verið heilluð af skrautlegum sokkum. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Annars er ég öll að koma til í því að ganga í skrautlegum sokkum, þótt ég toppi Fríðu trúlega aldrei,“ bætir hún við. Enda hefur Fríða vænt forskot, búin að þróa sinn fjölbreytta og á stundum forkostulega sokkasmekk í áratugi. „Ég komst á bragðið í Sock Shop þegar ég var átján ára í vinkvennaferð í London. Síðan hef ég haft mikla ástríðu fyrir öðruvísi sokkum og ekki átt einlita sokka í hátt á annan tug ára,“ segir hún.

Sokkafyrirsætur. F.v. Árni Arnarson, Örn Arnarson og Magnús Sveinsson.
Sokkafyrirsætur. F.v. Árni Arnarson, Örn Arnarson og Magnús Sveinsson.

Ósamstæð sokkatíska

Engu að síður upplýsir Hulda, nokkuð hróðug, að hugmyndin að sokkaversluninni sé runnin undan sínum rifjum. „Þegar Fríða átti afmæli í vor ætlaði ég að lauma með í pakkann krúttlegum sokkum og fór í helstu sokkabúðirnar í bænum. Þrátt fyrir mikla leit fann ég enga sokka sem voru öðruvísi en hún átti fyrir,“ segir Hulda, sem í kjölfarið stakk upp á að þær ættu bara að fara að selja hinsegin sokka. Hugmyndin fékk góðar undirtektir á heimilinu eins og gefur að skilja.

Pandabirnir.
Pandabirnir.

„Einföld markaðskönnun meðal vina og vandamanna leiddi síðan í ljós að mörgum þótti töluverður skortur á slíkum sokkum. Við fórum á stúfana, kynntum okkur sokkaframleiðendur í ýmsum löndum og á endanum afréðum við að eiga viðskipti við þrjá sem okkur þótti skara fram úr í fjölbreytni, gæðum og frumleika; Soxo í Póllandi, K.Bell í Bandaríkjunum og Oddsocks í Bretlandi,“ segja þær.

Hulda viðurkennir að áður en hún hellti sér út í sokkabisnessinn hafi hún verið fremur óforfrömuð í sokkastískunni. „Einu sinni þegar ég hitti bróður minn í ósamstæðum sokkum, að því að mér fannst, benti ég honum pent á mistökin. Hann sagði að ekki væri um slíkt að ræða, sokkarnir væru það allra fínasta frá Oddsocks eins og allir ættu að sjá,“ segir hún og lætur þess getið að sokkar frá tilteknum framleiðanda séu þó samstæðir upp að vissu marki þegar grannt væri skoðað. „Mynstrin eru útpæld og ganga út á sama þemað á hverju pari, til dæmis pöndur eða kökur, í mismunandi útfærslum og litasamsetningum.“

Einhyrningar.
Einhyrningar.

Ætla að sokkavæða þjóðina

Hulda og Fríða vinna bæði saman og skipta með sér ákveðnum verkum í nýja fyrirtækinu sínu. Hulda hefur bókhaldið og fjármálin á sinni könnu, en hún er menntaður hagfræðingur og starfar sem tölvunarfræðingur í fullu starfi hjá Annata. Fríða, sem er kennari, hefur tekið sér ársleyfi frá kennslu til að sinna daglegum rekstri. Eins og nú háttar til eru þær með lagerinn heima hjá sér, en draumurinn er að opna verslun með bindum, slæðum og öðrum fylgihlutum auk sokkanna þegar fram líða stundir.

Upp úr dúrnum kemur að báðar eru af verslunarfólki komnar. „Reynslan af verslunarstörfum einskorðast þó við að ég vann sem unglingur í Borgarbúðinni í Kópavogi, sem afi minn heitinn átti og rak í áratugi, og var nokkur sumur á kassanum í Hagkaup,“ segir Hulda. „Og ég ólst nánast upp í verslun föður míns, Gráfeldi í Bankastræti, sem hann rak til ársins 1990,“ upplýsir Fríða.

Kafbátur.
Kafbátur.

Markmiðið er háleitt því þær hyggjast hvorki meira né minna en sokkavæða þjóðina með líflegum og skemmtilegum sokkum. Og Hulda hefur lofað að láta ekki sitt eftir liggja. „Ég verð náttúrlega skikkuð til að ganga í skrautlegum sokkum og sokkabuxum við kjólana mína og dragtirnar,“ segir hún í gríni. Hún er þó svolítið efins um að sokkar með fígúrum og öðru slíku séu við hæfi þegar í hlut á virðulegur tölvunarfræðingur að heimsækja viðskiptavini – eins og hún sjálf. „Ætli það þætti ekki pínulítið hinsegin,“ segir hún hlæjandi og heldur áfram: „Fríða klæðir sig allt öðruvísi. Hún er alltaf í lágum skóm og síðbuxum en gætir þess vel að sokkarnir njóti sín og fer úr skónum þegar hún kemur heim til fólks á meðan ég tipla um á mínum háu hælum og látlausu sokkum.“

Rendur og kassar.
Rendur og kassar.

Heppileg tilviljun

Þær taka undarlega fálega hrósi um þá klóku markaðssetningu að setja netverslun með hinsegin sokka í loftið í aðdraganda Hinsegin daga. „Algjör tilviljun raunar, en afar heppileg,“ viðurkenna þær. „Við af öllum hefðum auðvitað átt að fatta tenginguna. Eina sem við höfum okkur til afsökunar er að við erum ennþá að læra.“ Og til þess að fyrirbyggja misskilning taka þær sérstaklega fram að sokkarnir sem í boði eru á sokkaskuffan.is séu hinsegin í alls konar skilningi, en einkum þó í merkingunni öðruvísi en venjulegir, þessir svörtu eða hvítu til að mynda. Röndóttir, doppóttir, tíglóttir eða allt í senn, sumir lýsa í myrkri, aðrir eru með texta og/eða ákveðnu þema; myndum af dýrum, mat, fótboltum, golfboltum, læknadóti og nánast flestu sem nöfnum tjáir að nefna.

Hlýir krakkasokkar.
Hlýir krakkasokkar.
Sokkarnir í sokkaskúffunni eru hinsegin í merkingunni að þeir eru …
Sokkarnir í sokkaskúffunni eru hinsegin í merkingunni að þeir eru öðruvísi en venjulegir
Í flottum sokkum. Fríða Agnarsdóttir og Hulda Ólafsdóttir Klein segja …
Í flottum sokkum. Fríða Agnarsdóttir og Hulda Ólafsdóttir Klein segja sokkana frá Sokkaskúffunni vera fyrir alla; konur, karla og börn. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
Tíglar. Sparisokkar við fína skó.
Tíglar. Sparisokkar við fína skó. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: