Nálgunarbann eftir áralangt áreiti

Hæstiréttur staðfesti ákvörðun lögreglunnar um nálgunarbann.
Hæstiréttur staðfesti ákvörðun lögreglunnar um nálgunarbann. Brynjar Gauti

Hæstiréttur staðfesti í gær ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá því í mars um að karlmanni er gert að sæta nálgunarbanni í sex mánuði þannig að hann megi ekki koma í námunda við heimili barnsmóður sinnar og sonar, en það er svæði sem afmarkast við 50 metra radíus frá heimilinu. Þá má maðurinn ekki setja sig í samband við mæðginin, veita þeim eftirför eða nálgast þau á almannafæri.

Með dómi sínum sneri Hæstiréttur við úrskurði héraðsdóms sem hafði ekki talið brot mannsins uppfylla skilyrði laga til að setja á nálgunarbann.

Tólf atvik í málaskrá lögreglunnar

Maðurinn og konan hófu samband sitt árið 2010 og eignuðust síðar son saman. Frá árinu 2010 eru skráð 12 atvik í málaskrá lögreglunnar þar sem konan óskar eftir aðstoð lögreglu, meðal annars vegna þess að maðurinn réðst á konuna og vegna frelsissviptingar og húsbrots. Konan leitaði meðal annars til Kvennaathvarfsins þar sem hún hafi sagt að maðurinn vildi ekki skilja eða sætta sig við að sambandi þeirra væri lokið.

Manninum var árið 2013 vísað af landi brott og hlaut í leiðinni endurkomubann í tvö ár. Segir í dómi héraðsdóms að fyrir liggi rökstuddur grunur um að hann hafi beitt barnsmóður sína ofbeldi og ógnunum meðan á sambandi þeirra stóð og eftir að hún reyndi að enda það.

Um síðustu jól barst svo lögreglu tilkynning um að maðurinn hafi slegið konuna í viðurvist barnsins. Í skýrslu lögreglu kemur fram að sýnilegir áverkar hafi verið á konunni. Er hún ein með forræði yfir barninu, en í þetta skiptið hafi maðurinn komið og farið með drenginn á brott. Þegar lögreglan var komin á vettvang og hringdi í manninn kom hann og skilaði drengnum. Sagði maðurinn að konan hefði leyft honum að fara með drenginn í burtu.

„Mamma gráta, pabbi búmm, búmm“

Í gögnum barnaverndarnefndar um málið kom fram að drengurinn hafi tjáð starfsmönnum leikskólans sem hann var á að „mamma gráta, pabbi búmm, búmm.“

Það var velferðarsvið sem fór fram á nálgunarbann í janúar á þessu ári og tók lögreglan ákvörðun um það í febrúar. Það var þó ekki fyrr en í júlí sem manninum var birt ákvörðunin, en í dóminum kemur fram að bæði hafi þar spilað inn í að talið var að hann myndi hefja afplánun í fangelsi sem svo ekkert varð af og þá hafi ekki náðst í hann fyrr en hann var stoppaður af lögreglu í júlí. Gildir nálgunarbannið því frá þeirri dagsetningu í sex mánuði samkvæmt dómi Hæstaréttar.

Dómur Hæstaréttar í heild sinni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert