Tólf ofbeldismálum of mikið

Þjóðhátíðin í Eyjum 2016 tókst vel að mati Þjóðhátíðarnefndar og …
Þjóðhátíðin í Eyjum 2016 tókst vel að mati Þjóðhátíðarnefndar og veðurguðirnir léku við hátíðargesti. mbl.is

Þjóðhátíðarnefnd er kunnugt um að í gær höfðu 11 líkamsárásir og ein nauðgun verið kærð til lögreglu eftir hátíðina í ár. 

„Þessi fjöldi kærumála veldur vonbrigðum og er 12 málum of mikið,“ segir í tilkynningu frá nefndinni. Í kjölfar hátíðarinnar verður sérstökum starfshópi falið að fara yfir framkvæmdina og gera tillögur um hvernig efla megi enn frekar öryggi á Þjóðhátíð og stuðla að hugarfarsbreytingu gagnvart kynferðisofbeldi og öðru ofbeldi.

Þjóðhátíðanefnd hefur lagt sérstaka áherslu á forvarnir gegn öllu ofbeldi og að þessu sinni voru um 100 manns við öryggisgæslu í Herjólfsdal þegar flest var auk læknis og hjúkrunarfræðinga. Þá var starfandi áfallateymi í dalnum sem stýrt var af fagmenntuðu starfsfólki. Til að undirstrika áherslu á öryggismálin var athöfn á föstudagskvöld þar sem gestir, hljómsveitir og starfsfólk hátíðarinnar sýndu með táknrænum hætti að ofbeldi á Þjóðhátíð er ekki liðið, segir í tilkynningu Þjóðhátíðarnefndar. 

Auk þeirra fjölmörgu tónlistarmanna sem fram komu á hátíðinni og um 100 öryggisvarða lögðu hátt í 200 sjálfboðaliðar Þjóðhátíðarnefnd lið við framkvæmd hátíðarinnar. Þjóðhátíðarnefnd þakkar öllu þessu góða fólki fyrir vel unnin störf á Þjóðhátíð. Hreinsun Herjólfsdals gekk vel og var henni að mestu lokið á mánudagskvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert