„Við erum búin að gefast upp“

Hafberg er búinn að gefast upp á bláu kössunum.
Hafberg er búinn að gefast upp á bláu kössunum. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

„Við erum búin að gefast upp,“ segir Hafberg Þórisson, eigandi gróðrarstöðvarinnar Lambhaga. Hann er hættur að kaupa endurnýtanlega kassa frá Bretlandi undir grænmetið sitt og ætlar framvegis að vera með einnota pappakassa.

Hann segir fyrirtækið hafa annað hvert ár keypt heilan gám af kössunum. Vegna þess að þeir skila sér illa til baka hefur það tapað um þremur milljónum króna á ári.

„Það er þjóðhagslega hagkvæmt að menn skuli vera með margnota kassa en sá skilningur er ekki hjá öðrum. Ég tapa hálfum gámi á ári en núna er ég hættur því,“ segir Hafberg.

Sölufélag garðyrkjumanna hefur lent í samskonar vandræðum með sína grænu kassa, eins og framkvæmdastjóri félagsins, Gunnlaugur Karlsson, greindi frá í samtali við mbl.is.

Frétt mbl.is: Stolnir grænmetiskassar stórt vandamál

Blár grænmetiskassi í verslun Víðis.
Blár grænmetiskassi í verslun Víðis. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Keypti vél fyrir 15 milljónir

Hafberg kaupir núna tilbúna kassa að utan sem á eftir að líma saman og hefur fest kaup á vél, sem kostar um 15 milljónir króna, sem sér um að setja þá saman.

„Núna verða pappakassar undir mínar vörur í öllum verslunum. Þetta er heldur ódýrara fyrir mig en verslanirnar þurfa að farga öllum þessum kössum. Við erum að afgreiða 400 tonn af grænmeti á ári, þannig að þetta eru ansi margir kassar,“ segir hann og telur að þeir séu um 130 þúsund á ári.

Hafberg Þórisson, eigandi Lambhaga.
Hafberg Þórisson, eigandi Lambhaga. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hvolfir úr kössum og tekur þá

Hafberg nefnir að Sölufélag garðyrkjumanna hafi óskað eftir því að fá að nota nýju pappakassana frá Lambhaga fyrir sínar vörur þegar þeir verða komnir í gagnið á næstunni. Næstu mánuðir geti verið erfiðir hjá félaginu vegna kassaskorts.

„Þetta er skelfilegt ástand. Við höfum farið um á bíl og hirt upp [bláu] kassana. Ég hef meira að segja þurft að labba inn þar sem fólk er að nota þá undir hitt og þetta. Ég bara hvolfi úr þessu og segi: „Ég á kassann“ og labba svo út með kassann,“ segir hann. „Einn er svo frakkur að hann tekur mína kassa, málar þá hvíta og brennir ofan á þá fyrirtækismerki sitt.“

mbl.is/Hjörtur

Hafberg byrjaði að nota bláu kassana í kringum árið 2002. Hann segir breska fyrirtækið sem hann hefur keypt bláu kassana af vera mjög gott. „Þetta er frábær vara og þetta á allt að geta gengið vel ef fólk léti þetta í friði.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert