Knattspyrna, kristni og BDSM

Fordómarnir voru bornir til grafar í dag.
Fordómarnir voru bornir til grafar í dag. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Það voru fjölbreyttir hópar sem tóku þátt í Gleðigöngunni í dag og óku bæði og gengu að Arnarhóli ásamt fríðu föruneyti. Knattspyrna, kristni og BDSM voru á meðal þeirra málefna sem hópar göngunnar stóðu fyrir og ræddi mbl.is við nokkra þegar gangan var við það að hefjast.

Fordómar innan knattspyrnuhreyfingarinnar

Knattspyrnufélagið Styrmir lét sig ekki vanta í Gleðigönguna í ár og segja þeir Jón Þór, Pétur Björgvin og Pétur Óli félagið hafa sett sig í samband við Knattspyrnufélag Íslands, sem hafði síðan samband við aðildarfélög sín og hvatti þau til að mæta í gönguna.

Fordómar innan íþróttahreyfingarinnar hafa oft verið í umræðunni, þá sérstaklega í knattspyrnu karla, þar sem hommar innan knattspyrnuhreyfingarinnar virðast hreint ekki koma út. Þeir Styrmismenn telja fordómana fyrst og fremst stafa af fáfræði, enda sé það hún sem valdi fordómum.

„Vonandi er þetta eitthvað sem er lítið um í dag og verður minna um eftir daginn í dag. Þegar við stofnuðum félagið var í rauninni þörf fyrir að hafa þetta í sér félagi. Við verðum auðvitað fegnastir ef þetta verður þannig að það þurfi ekki sér félag, menn geti bara komið út í sínum félögum.“

„Það opnaðist svolítið á þá umræðu í vetur og þess vegna erum við byrjaðir í samstarfi við KSÍ og reynum að útrýma þessum fordómum.“

Jón Þór, Pétur Björgvin og Pétur Óli.
Jón Þór, Pétur Björgvin og Pétur Óli. mbl.is/Vífill

Þróttarar svöruðu kallinu og tóku þátt í göngunni í dag. „Við erum bara að taka þátt í göngunni eins og allir aðrir og styðjum heilshugar íþróttir án fordóma. Það er okkar ánægja að taka þátt og vera með í gleðinni í dag.“

Segja þeir fordóma gegn hinsegin fólki ekki eiga heima í íþróttum, neitt frekar en annars konar fordóma. „Þeir eiga ekki heima í íþróttum, eða bara lífinu yfir höfuð. Þeir eiga engan stað hér.“

En hvers vegna haldast fordómar gegn hinsegin fólki svo vel innan íþróttahreyfingarinnar, þá sér í lagi knattspyrnu? „Ég veit það ekki. Það er bara eins og almennt í lífinu, þar sem eru fordómar þá eru þeir, hvort sem það er í íþróttum eða öðru. Við verðum bara að standa saman og útrýma þeim hvar sem þeir eru.“

„Þetta er náttúrlega karlaheimur. Konurnar eru komnar lengra að útrýma þessum fordómum úr fótboltanum alla vega.“ Segjast þeir hafa verið að rifja upp hvort einhver knattspyrnumaður hafi komið út úr skápnum á Íslandi og mundu eftir einum, sem leikur í neðri deildunum.

Minntust þeir þá Justin Fashanu, ensks knattspyrnumanns sem lék í efstu deild þar í landi og kom út úr skápnum, en varð fyrir miklu aðkasti vegna kynhneigðar sinnar og framdi að lokum sjálfsvíg.

„Við erum bara stoltir Þróttarar og tökum þátt í þessu, heilshugar.“

Hressir Þróttarar fyrir gönguna í dag.
Hressir Þróttarar fyrir gönguna í dag. mbl.is/Vífill

Útför fordómanna

Kirkjunnar menn létu sig ekki vanta í gönguna, Æskulýðssamband þjóðkirkjunnar ók líkbíl, sem táknaði fordómana sem bornir voru til grafar í dag. Þeir Guðmundur Karl Einarsson og Hjalti Jón Sverrisson, úr stjórn sambandsins, segja viðveru þjóðkirkjunnar í göngunni mikilvæga og trúa þeir á fordómalausan guð.

„Það er svo ríkt í okkur að elska fordóma okkar, að þykja vænt um þá, því við finnum öryggi í þeim. Það er ótrúlega mennskt og eðlilegt. Þess vegna er svo gott að geta tekið þessa umræðu, án ótta.“

„Fólk er stundum að grípa í einhver Biblíuvers og lesa Biblíuna á bókstaflegan hátt. Okkur sem manneskjum er gefið innsæi og skynsemi. Trúarbrögð eru eins og svo margt annað í lífinu, skapandi farvegur og trúarbrögð eru eilíflega í mótun og alltaf skapandi í eðli sínu,“ útskýrir Hjalti.

„Við sjáum það til dæmis, sem hefur verið komið inn á í fræðigreinum, að það má sjá skýran mun á því sem mætti kalla siðfræði Biblíunnar annars vegar og kristna siðfræði hins vegar. Þetta sögulega hefur ekki haldist í hendur alltaf, endilega. Þegar þú mætir í þennan heim færðu það verkefni í hendurnar hvernig þú ætlar að lesa þennan heim og hvernig ætlar þú að taka á móti honum. Ég sem einstaklingur verð alltaf að taka ábyrgð á mér og í dag ætlum við að taka ábyrgð á okkur með því að fagna því að kærleikurinn lifir.“

Spurður hvernig vinna megi gegn fordómum gegn hinsegin fólki meðal kristinna og annarra trúarhópa segir Guðmundur: „Ég held að opin umræða skipti öllu máli. Eins að við látum í okkur heyra þegar menn fara með rangt mál og nota jafnvel Biblíuna til að berja á samkynhneigðum, sem hún nýtist illa í.“

Hjalti bætir við að aldrei sé hægt að réttlæta ofbeldi og að það felist mikill galdur í samræðunni. Hana verði að eiga.

Þetta var þriðja gangan sem Æskulýðssamband þjóðkirkjunnar tekur þátt í, en í fyrsta sinn sem bíll er hafður með í för.

„Við höfum haft þetta slagorð áður, það sem Jesú segir um samkynhneigða, sem eru tómar gæsalappir. Okkur finnst mikilvægt að þjóðkirkjan sé með í Gleðigöngunni og þó að við séum frjáls félagasamtök þá tilheyrum við þjóðkirkjunni.“

Hjalti og Guðmundur, frá Æskulýðssambandi kirkjunnar.
Hjalti og Guðmundur, frá Æskulýðssambandi kirkjunnar. mbl.is/Vífill

Mikið af BDSM-fólki inni í skápnum

„Það er mikilvægt að við séum sýnileg og berjumst gegn fordómi, því margt BDSM-fólk er inni í skápnum og það er sama hræðsla og samkynhneigðir stóðu frammi fyrir á sínum tíma,“ segir Geir Guðmundsson, sem gekk með BDSM á Íslandi.

Spurður hvort BDSM-fólk verði fyrir fordómum innan hreyfinga hinsegin fólks segir hann suma hrædda við að tengjast þeim, en BDSM hefur verið í umræðunni undanfarin misseri vegna inngöngu sambandsins í Samtökin 78.

„Það virðist vera að sumir samkynhneigðir séu svona eitthvað hræddir við að tengjast við okkur, vegna fordóma sem eru gagnvart BDSM í samfélaginu. En ég held að þessar deilur Samtakanna 78, um hvort eigi að veita okkur aðild að sambandinu, snúist meira um að sumum innan samtakanna finnst að verið sé að þynna félagið út og að þeir eigi ekki lengur sitt félag og finnst það svolítil ógnun að öll flóran sé komin þar inn.“

„Það er ósköp skiljanlegt. Kannski þurfum við að hafa Samtökin 78 sér og önnur hinsegin samtök sem ná yfir allt.“

Geir hefur alltaf tekið þátt í gleðigöngunni, þótt fyrst núna gangi hann undir formerkjum BDSM. Hann hefur þó alltaf verið í latex-klæðnaði líkt og nú og m.a. gengið með leðurhommum. Sagði hann mikla gleði og mikið gaman fram undan, áður en gangan hófst.

Geir Guðmundsson.
Geir Guðmundsson. mbl.ís/Vífill
mbl.is