Upplýsingar fyrir gesti Gleðigöngu

Gleðigangan er hápunktur Hinsegin daga en dagskrá hátíðarinnar er fjölbreytt.
Gleðigangan er hápunktur Hinsegin daga en dagskrá hátíðarinnar er fjölbreytt. mbl.is/Ómar Óskarsson

Gleðigangan í Reykjavík fer fram í dag klukkan tvö, en gengið verður frá BSÍ og að Arnarhóli. Þar mun svo fara fram skemmtidagskrá þar sem Sísí Ey, Hildur, Friðrik Dór, Hljómsveitin Eva, Dragsúgur, Bjartmar Þórðarson og Páll Óskar koma fram. Auk þess mun Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, flytja hátíðarræðu. 

Undanfarin ár hafa tugir þúsunda mætt í gönguna og til að fylgjast með skemmtidagskránni. Stjórn hinsegin daga og lögreglan hafa hvatt gesti til að mæta tímanlega, en gera má ráð fyrir að framkvæmdir á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar geti tafið umferð til og frá miðborginni. 

Þá er gott að hafa í huga að nokkrar götur í miðborginni verða lokaðar í kringum gönguleið Gleðigöngunnar og við hátíðarsvæðið við Arnarhól frá hádegi og þar til dagskránni lýkur. Sjá má götulokanir og tímasetningu þeirra á meðfylgjandi korti.

Lokanir í dag á meðan á Gleðigöngunni stendur.
Lokanir í dag á meðan á Gleðigöngunni stendur. Mynd/Reykjavíkurborg

Borgarstjóri og stjórn hinsegin daga hafa einnig hvatt gesti til að nýta sér þjónustu Strætó á þessum tíma. Meðan á götulokunum stendur hafa leigubílar aðstöðu í Ingólfsstræti (fyrir aftan styttuna af Ingólfi Arnarsyni). Þá hefur einnig verið mælst til að fólk hjóli eða gangi í bæinn, enda ljóst að mikil umferð verður meðan hátíðin stendur yfir.

Veðurspáin fyrir daginn er með allra besta móti, en gert er ráð fyrir sól og allt að 17 stiga hita í höfuðborginni.

Í kvöld verður svo gleðinni haldið áfram m.a. á Bryggjunni þar sem hið árlega Pride-ball fer fram. Mun hljómsveitin Stjórnin spila þar fram á nótt. Þá heldur Páll Óskar Palla-ball á Nasa, en þetta er í fyrsta skipti í fjögur ár sem hann heldur ball þar. 

Vegfarendum er bent á að tafir geta orðið á umferð …
Vegfarendum er bent á að tafir geta orðið á umferð á Miklubraut vegna framkvæmda við gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Mynd/Veitur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert