Dekkjakurlið komið undir vellina

Hér má sjá gúmmídýnuna undir Fylkisvellinum.
Hér má sjá gúmmídýnuna undir Fylkisvellinum. mbl.is/Freyja

Sams konar dekkjakurl og var tekið af gervigrasvöllum Fylkis, Víkings og KR vegna mikillar umræðu um skaðsemi þess hefur verið sett í undirlag vallanna.

Einar Finnsson, sölumaður mannvirkjasviðs hjá fyrirtækinu Altis, sem flutti inn frá Hollandi og Þýskalandi gervigrasið og kurlið sem á það fer, staðfestir þetta. „Það er búinn til púði eða dýna með því að blanda saman lími og endurunnum hjólbörðum,“ segir Einar og tekur fram að ekki sé um laust kurl að ræða. Eini munurinn á þessu kurli og dekkjakurlinu sem var áður á völlunum sé kornastærðin.

Hann segir dekkjakurlið vera hættulaust, auk þess sem það komist aldrei í snertingu við knattspyrnuiðkendur. Einar bætir við að umræðan um dekkjakurlið sem áður var á völlunum hafi verið fáránleg því það sé einnig hættulaust. Því kurli hefur verið fargað.

Frá framkvæmdum við lagningu gervigrassins á Fylkisvelli.
Frá framkvæmdum við lagningu gervigrassins á Fylkisvelli. mbl.is/Freyja

Yfir 300 tonn í hvern völl

Aðspurður segir hann að um 120 tonn af dekkjakurli fari í gúmmídýnuna undir hverjum gervigrasvelli fyrir sig, auk þess sem um 160 tonn af sandi og 40 tonn af Virgin-gúmmíi fari í grasið sjálft.

Er þetta umhverfisvænt? „Já, ég held að borgin og allir séu ákaflega stoltir af þessari lausn. Menn eru að skjóta langt yfir markið í að elta þessa kröfu sem varð til við þessa umræðu um dekkjakurlið. Það eru ekki nema 5% gervigrasvalla í Evrópu sem fara alla þessa leið.“

Framkvæmdir fyrir 180 milljónir

Stutt er síðan Reykjavíkurborg lét skipta um undirlag og gúmmíkurl á gervigrasvelli Víkinga, auk þess sem sams konar framkvæmdir hafa staðið yfir hjá Fylki og KR. Kostnaðurinn nemur um 180 milljónum króna.

Frétt mbl.is: Dekkjakurl fjarlægt af þremur völlum

mbl.is/Freyja

Af tegundinni SBR

Peter Jessen, byggingariðnfræðingur hjá Verkís, annast eftirlit með verkinu. Hann staðfestir að sams konar dekkjakurl og var á völlunum, af tegundinni SBR, sé í gúmmípúðunum en segir það sé hættulaust með öllu.

„Þetta er svart gúmmí undir grasinu sem kemur ekki nálægt þeim sem spila,“ segir Peter, sem hefur 20 ára reynslu af lagningu gervigrasvalla á Íslandi.

Ekki hættulegt grunnvatni

Hann bætir við að gúmmíið sé ekki hættulegt grunnvatni og greinir einnig frá því að Virgin-gúmmíið sem er á yfirborði vallanna sé það dýrasta sem hægt sé að fá. Það sé svipað og í strokleðrum á blýöntum.

Aðspurður segir hann að fjögur tilboð hafi borist í lagningu gervigrass á vellina hjá Víkingi, Fylki og KR.

Páll Halldórsson, framkvæmdastjóri Metatrons, sem hefur mikla reynslu af gervigrasi, bætir því við að dekkjakurlið undir völlunum sé húðað og að engin hættuleg efni leki úr því. Hann segir að gúmmípúðinn með dekkjakurlinu sé notaður til að ná fram aukinni mýkt í grasið. 

Efnastofnun mælir ekki gegn notkun

Mikil umræða hefur skapast um notkun dekkjakurls vegna skaðlegra efna í því. Ekki hefur þó tekist að sýna fram á orsakasamband á milli notkunar dekkjakurls og heilsubrests. Rannsakendur hafa ekki útilokað að svo geti verið.

Efnastofnun Evrópu hefur ekki mælt gegn notkun dekkjakurls á gervigrasvöllum, samkvæmt nýlegri greinargerð Umhverfisstofnunar sem rannsakaði dekkjakurl á gervigrasvöllum vegna umfjöllunar um meinta skaðsemi þess.

Frá íbúafundi í Frostaskjóli í fyrra þar sem fulltrúar borgarinnar …
Frá íbúafundi í Frostaskjóli í fyrra þar sem fulltrúar borgarinnar ræddu við foreldra barna í knattspyrnu um dekkjakurl á gervigrasvöllum. mbl.is/Golli

Ekki réttur staðall?

Umboðsaðilar Sportisca á Íslandi hafa hafa sent inn formlega kvörtun til borgarráðs Reykjavíkur vegna ákvörðunar þess um að miða við úreltan staðal við lagningu gervigrass á velli Fylkis, Víkings og KR.

Sveinbjörn Freyr Arnaldsson, einn af umboðsaðilunum, kveðst ekki hafa fengið nein svör frá borginni. „Þeir voru með rangan staðal í útboðinu. Sett var sem skilyrði í útboðsgögnum að bjóða upp á óheilbrigðasta undirlag sem völ er á, sem er dekkjarkurl og krabbameinsvaldandi bindiefni. Nokkrar umhverfisvænar lausnir eru samt í boði,“ segir Sveinbjörn Freyr.

Sportisca er innfylliefnalaust knattspyrnugras frá Sviss, þ.e. án nokkurs gúmmíkurls eða sands, og er að mati Sveinbjarnar það besta sem völ er á í heiminum í dag, og líkast því að spila á náttúrulegu grasi.

Frá framkvæmdum við gervigrasvöll Fylkis.
Frá framkvæmdum við gervigrasvöll Fylkis. mbl.is/Freyja

Sveinbjörn segir að borgin hafi verið með FIFA 2-staðal í útboðinu þegar hún hefði átt að vera með FIFA 1-staðal eins og Sportisca uppfylli. FIFA 2-staðallinn á við um keppnisgras en FIFA 1 staðallinn á við um æfingagras þar sem lágmarkskröfur eru fjórum sinnum strangari varðandi endingu vallanna.

Hann segir KSÍ enn miða við FIFA 2-staðlana á sínum gervigrasvöllum í efstu deildum á Íslandi. Hann tekur þó fram að Alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA eigi enn eftir að gefa grænt ljós á innfylliefnalaust gervigras.

Segir staðalinn réttan

Peter Jessen segir að FIFA 1-staðallinn hafi komið fyrir 12 árum en FIFA 2-staðallinn hafi komið síðar, þar sem mun meiri kröfur voru gerðar. Hann vísar því á bug að borgin hafi notast við rangan staðal í útboðinu og tekur fram að KSÍ notist við FIFA 2-staðalinn.

mbl.is