Kjósa um ESB við upphaf samstarfs

Oddný Harðardóttir.
Oddný Harðardóttir.

Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, segist vilja sjá þjóðaratkvæðagreiðslu um inngöngu Íslands í Evrópusambandið við upphaf ríkisstjórnarsamstarfs ef þeir flokkar sem eru í stjórnarandstöðu fara í ríkisstjórnarsamstarf. Hún segir eðlilegt að þjóðin fái að kjósa um hvort Ísland sæki um aðild að ESB. Þetta er meðal þess sem kom fram í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni.

Birgitta Jónsdóttir, kapteinn Pírata, segir að grasrót Pírata hafi heitið því að farið verði í þjóðaratkvæðagreiðslu. Búnar verði til leiðir fyrir almenning til að lýsa yfir skoðunum sínum og hann fái að koma að ákvarðanatöku. 

Oddný segir Samfylkinguna hafa átt í vanda en telji að hún hafi náð þeirri stöðu að geta spyrnt við. Hún segir erfitt að skýra hvað sé – tekið hafi verið á vandanum með því að skipta forystunni út. Hún segist hafa trú á því að landið fari að rísa hjá Samfylkingunni þegar hún kynni málefni sín.

Hún segir það vonbrigði hvað fylgi flokksins hefur lítið þokast upp á við frá því hún var kjörin formaður. En hún sé ekki að gefast upp. 

Páll Magnússon segir Bjarta framtíð vera við dauðans dyr miðað við fylgi flokksins og Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, staðfestir að það hafi verið allt annað en gaman að fylgjast með þróun fylgisins í skoðanakönnunum að undanförnu en fylgi flokksins mælist um 4%. Óttarr veltir því fyrir sér hvort flokkurinn hafi verið of duglegur að vinna á þingi í stað þess að vera út á við.  Óttarr segir að Björt framtíð muni bjóða fram í öllum kjördæmum og hann hafi fulla trú á framtíð flokksins.

 Oddný og Óttarr segja að ekki komi til greina að fara í ríkisstjórnarsamstarf með rasistum og flokkum sem ekki vilja sjá breytingar. Birgitta tekur undir það en hún leggur til að allir flokkar geri tíu ára áætlanir um hvað þeir vilja sjá gerast í þjóðfélaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert