Maðurinn fundinn

Frá aðgerðum lögreglu í Breiðholti á föstudagskvöldið.
Frá aðgerðum lögreglu í Breiðholti á föstudagskvöldið. mbl.is/Freyja Gylfadóttir

Maður sem Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur leitað að í tengslum við rannsókn hennar á skotárás í Breiðholti á föstudagskvöld var handtekinn í umdæminu í morgun.

Hann er annar tveggja manna sem grunaðir eru um aðild að skotárásinni en hinn var handtekinn aðfaranótt laugardags og í framhaldinu úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna.

Maðurinn sem var handtekinn í morgun hefur verið færður til yfirheyrslu, en ákvörðun um gæsluvarðhaldskröfu yfir honum hefur ekki verið tekin.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi frá sér fyrir skömmu. 

Friðrik Smári Björgvinsson, yfirmaður rannsóknardeildar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við mbl.is að lögregla hafi haft uppi á manninum og handtekið hann. Maðurinn fannst á höfuðborgarsvæðinu. 

Til­kynnt var um tvo skot­hvelli sem bár­ust frá hópn­um á föstu­dags­kvöld. Til vopnaðra slags­mála kom á milli 40 til 50 manns fyr­ir utan sölut­urn­inn í Iðufelli. Friðrik Smári sagði í sam­tali við mbl.is í gær að al­menn­ingi stafaði ekki hætta af mann­in­um og svo virt­ist sem átök­in tengd­ust upp­gjöri á milli tveggja hópa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert