Vísar ásökunum Hreiðars Más á bug

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari.
Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari. mbl.is/Ómar

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari vísar ásökunum Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrverandi bankastjóra Kaupþings, um að starfsmenn sérstaks saksóknara hafi leynt gögnum í sakamáli gegn Kaupþingsmönnum, á bug. Málið sé til meðferðar hjá Hæstarétti.

„Þetta mál sem um ræðir er enn þá til meðferðar hjá Hæstarétti í formi áfrýjunar og ég reikna með að það verði fjallað um þessa málsástæðu og aðrar í úrlausn dómsins,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Hann segist ekki geta tjáð sig efnislega um málið á meðan Hæstiréttur hafi það til meðferðar. Það verði útkljáð þar.

Greint var frá því í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í gær að Hreiðar Már hefði farið fram á lögreglurannsókn á starfsháttum sérstaks saksóknara. Fullyrðir hann að stafsmenn embættisins hafi vísvitandi leynt mikilvægum sönnunargögnum í málinu.

Frétt mbl.is: Hreiðar Már kærir hérðassaksóknara

Með dómsúrskurði í desember í fyrra fékk Hreiðar Már aðgang að tölvuskeytum sem lögregla hafði lagt hald á úr tölvukerfi Kaupþings, en áður hafði saksóknari aðeins veitt sakborningum í dómsmálum er varða Kaupþing aðgang að gögnum sem hann lagði sjálfur fram fyrir dómi.

Hörður Felix Harðarson, lögmaður Hreiðars Más, sagði í samtali við mbl.is í gærkvöldi að umrædd gögn hefðu skipt miklu máli og sýkna héraðsdóms í málinu hefði meðal annars byggst á þeim.

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings.
Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings. mbl.is/Þórður

Í tölvuskeytunum kemur meðal annars fram að tryggingar hafi verið fyrir lánunum, sem ákært var fyrir í málinu, gagnstætt því sem haldið er fram í ákæru saksóknara.

Sýknað í héraði

Hreiðar Már var, ásamt Sigurði Einarssyni, fyrrverandi stjórnarformanni Kaupþings, og Magnúsi Guðmundssyni, fyrrverandi bankastjóra Kaupþings í Lúxemborg, sýknaður í héraðsdómi í janúar á þessu ári. Þeir voru sakaðir um að hafa samþykkt að lána Tortóla-félögum í eigu Ólafs Ólafsson, Karenar Millen og fleiri viðskiptavina samtals hátt í sjötíu milljarða króna haustið 2008, rétt áður en bankinn féll.

Ólafur Þór segir að ríkissaksóknari hafi tekið dóminn til skoðunar og ákveðið að áfrýja honum. „Það þýðir að ákæruvaldið unir ekki við niðurstöðu héraðsdóms eins og hún liggur fyrir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert