Afþakka svifbraut á Esju

Mógilsá er við rætur Esju.
Mógilsá er við rætur Esju. mbl.is/RAX

Íbúasamtök Kjalarness leggjast alfarið gegn því að Reykjavíkurborg undirriti samning um leigu á lóðum í hlíðum Esju í tengslum við áætlanir fyrirtækisins Esjuferju ehf. um svifbraut á Esju.

Svifbrautin er ekki í samræmi við gildandi skipulag og umsagnaraðilar hjá ríkinu og Reykjavíkurborg vara við framkvæmdunum. Íbúasamtökin gera einnig alvarlegar athugasemdir við stjórnsýslu í tengslum við verkefnið, samkvæmt tilkynningu sem þau hafa sent frá sér.

Svifbrautinni er ætlað að ferja um 150.000 ferðamenn á ári upp á topp Esju, sem í skipulagi hefur verið skilgreindur með lítið útivistarþol.

Um er að ræða þrjú 37–45 m há möstur sem munu sjást í 10–12 km fjarlægð og nokkur minni þar á milli, 1.000–1.500 fm byggingu á upphafsstöð við Esjurætur, 800–1.000 fm byggingu við Rauðhól í miðri Esju í 467 m hæð yfir sjávarmáli, veg þangað sem einnig mun sjást í 12 km fjarlægð, 300–500 fm byggingu uppi á toppi Esju í 900 m hæð, farþegakláf sem tekur allt að 80 farþega, efnisþörf framkvæmda á bilinu 10.000–17.000 rúmmetrar, beina röskun á trjágróðri sem fjarlægja þarf á lóðunum, en kláfurinn mun liggja við og yfir svæði þar sem nú þegar eru fjölfarnir göngustígar og skógurinn er hvað þéttastur.

Ekki gerður fyrirvari um vilja íbúanna

„Reykjavíkurborg hefur að ósk einkafyrirtækis staðið í viðræðum við fjármálaráðuneytið um milligöngu um leigu á landi undir kláf og þjónustustöðvar í Esju, innan marka „Græna trefilsins“. Lóðaleigusamningur liggur nú fyrir og stendur undirritun af hálfu borgarráðs til á næstunni.

Með samningnum er land tekið af Skógrækt ríkisins og leigt til Reykjavíkurborgar. Í samningnum er gerður fyrirvari um að framkvæmdin standist umhverfismat og að skipulagsbreytingar verði gerðar.

Hins vegar er ekki gerður fyrirvari um vilja íbúa Reykjavíkur, þrátt fyrir að umsagnaraðilar (m.a. umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur, hverfisráð Kjalarness og Skipulagsstofnun) hafi bent á að skoða þurfi mjög gaumgæfilega þau samfélagslegu áhrif sem miklar ásýndarbreytingar á Esjunni gætu haft í för með sér og að þörf sé á heilsteyptri og faglegri umræðu um heildarskipulag og hlutverk svæðisins í samráði við hagsmunaaðila og almenning. Þá er bent á að hætta á slysum og mengun verði að teljast allveruleg,“ segir í tilkynningu frá Íbúasamtökum Kjalarness.

Í ákvörðun Skipulagsstofnunar um umhverfismatsskyldu (mat sem eigendur Esjuferju ehf. munu framkvæma) segir m.a. ljóst að töluvert ónæði muni skapast af starfsemi svifbrautar á Esju, sérstaklega sjónmengun.

Óafturkræft jarðrask verði á allmörgum stöðum í kringum möstur, þjónustustöðvar og bílastæði, auk þess sem ásýnd svæðisins muni breytast bæði í nálægð og fjarlægð.

Þá þurfi að kanna hver verði neikvæð áhrif á upplifun þeirra sem nú ganga á Esju og hvort svifbrautin gæti dregið úr áhuga fólks á að ganga fjallið.

Vilja frekar auka möguleika til útivistar

„Ef til stendur að gera skipulagsbreytingar til þess að fara í uppbyggingu svæðisins við Mógilsá telja Íbúasamtök Kjalarness nauðsynlegt að efna fyrst til umræðu um aukna möguleika borgarbúa og annarra til útivistar á og við fjallið og í framhaldinu til íbúakosningar um málið. Skoða verði fjölbreyttar hugmyndir um uppbyggingu svæðisins í sátt við náttúruna og í samráði við nærsamfélagið og hagsmunaaðila, s.s. íbúa í næsta nágrenni við Mógilsá, atvinnurekendur á staðnum og aðra íbúa borgarinnar.

Fyrr er ekki tímabært að Reykjavíkurborg undirriti samkomulag um leigu á landi af ríkinu að ósk einkafyrirtækis.

Íbúar í Kollafirði óskuðu í febrúar sl. eftir upplýsingafundi hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkur áður en lóðaleigusamningur yrði undirritaður. Sá fundur hefur enn ekki verið haldinn og var send kæra til umboðsmanns borgarbúa 2. júní vegna þess dráttar sem orðið hefur á fundi,“ segir enn fremur í tilkynningu.

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert