Vilja verðtryggingu burt í skrefum

Gunnar Bragi Sveinsson og Elsa Lára Arnardóttir.
Gunnar Bragi Sveinsson og Elsa Lára Arnardóttir. Samsett mynd.

Það er ekki hægt að afnema verðtrygginguna með einu pennastriki heldur verður að gera það í skrefum. Þetta segja þau Elsa Lára Arnardóttir og Gunnar Bragi Sveinsson í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag. Segja þau mikilvægt að leggja fram trúverðuga og tímasetta áætlun um afnám verðtryggingar eða skapa umhverfi í fjármálageiranum þar sem verðtryggingin hefur minna vægi en nú er.

Í grein þingmannanna kemur fram að unnið sé að tillögum sem eiga að draga úr vægi verðtryggingarinnar. Tillögurnar hafi verið gróflega kynntar fyrir þingflokki Framsóknarflokksins. Af orðum formanns Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssonar, að dæma í fjölmiðlum undanfarið er þó ljóst að ekki ríkir einhugur um afnám verðtryggingarinnar innan ríkisstjórnarinnar og má telja það víst að Sjálfstæðisflokkurinn vilji ganga skemur en Framsóknarflokkurinn í aðgerðum við afnám verðtryggingar.

Hugmyndir um „verðtryggingarþak“ og breytingar á vísitölu

Þau Gunnar og Elsa segja í greininni að tillögurnar sem nú eru á borðum nái aðeins til ákveðins hóps sem þau efast ekki um að verði til bóta fyrir hópinn. „En við, ásamt fleirum, höfum sett fyrirvara við þau drög og er ástæðan sú að við sjáum ekki hvernig koma eigi til móts við þá tugi þúsunda sem nú þegar eru með verðtryggð lán,” segja þau í greininni.

Nefna þau nokkrar hugmyndir um hvernig draga megi úr vægi verðtryggingarinnar.

Tillögur sem eiga að draga úr vægi verðtryggingarinnar hafa verið …
Tillögur sem eiga að draga úr vægi verðtryggingarinnar hafa verið kynntar þingflokki Framsóknarflokksins lauslega. mbl.is/Golli

Í fyrsta lagi með því að setja þak á verðtryggingu þannig að lántaki og lánveitandi skipti með sér áhættu. „Þannig að ef verðbólgan fer yfir ákveðna prósentu þá taki lánveitandi á sig áhættuna umfram það.”

Í öðru lagi með breyttum útreikningi verðbólgu og verðtryggingar þannig að notuð verði samræmd vísitala neysluverðs í stað vísitölu neysluverðs sem nú er notuð við útreikning. Munar þar um húsnæðisþáttinn sem tekinn yrði út úr vísitölunni.

Í þriðja lagi að setja takmarkanir á fjölda verðtryggðra lána í lánasöfnum lánastofnana og í fjórða lagi breyttur útreikningur verðtryggðra lána þannig að breytingar á vísitölu reiknist á og greiðist af hverjum gjalddaga fyrir sig en ekki höfuðstól.

Segja þau Gunnar og Elsa nauðsynlegt að skoða allar hugmyndir um að minnka enn frekar vægi verðtryggingar sé ekki meirihluti fyrir því í þinginu að afnema verðtryggingu með öllu. „Við höldum áfram að tala fyrir því að afnema beri verðtryggingu af neytendalánum. Það er ekkert sanngjarnt við það að lántakendur, það eru heimili landsins, beri einir þá áhættu sem felst í verðtryggðu lánaformi.”

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert