Flestir kjósa íslenskt kjöt

Frá matarhátíðinni í fyrra.
Frá matarhátíðinni í fyrra. mbl.is/Þórður

Yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga kýs frekar íslenskt kjöt en erlent og telur það skipta miklu máli að upplýsingar um uppruna kjöts séu sýnilegar á umbúðum þess. Þetta er á meðal niðurstaðna skoðanakönnunar sem Gallup gerði fyrir Matarhátíð alþýðunnar sem fer fram á Skólavörðustíg í miðbæ Reykjavíkur í dag frá 14 til 17.

Jóhannes Jónsson beikonbróðir segir að hátíðin í dag snúist um mat og allt það góða starf sem unnið sé í sveitum landsins.

„Gleymum því ekki að landbúnaður hér á landi byggir á langri og merkilegri sögu. Í dag er ótrúlegt úrval af góðum vörum þar sem lögð er áhersla á heilnæmi. Könnunin sýnir að neytendur kunna að meta það og velja íslenskt. Við viljum leggja okkar lóð á vogarskálarnar til að segja frá því. Hvað er þá betra en að fá að smakka á góðum mat og skemmta sér saman um leið,“ segir hann.

Frétt mbl.is: Beikonóð beikona komin til Íslands

Gallup spurði: Þegar þú kaupir kjöt, hvort kýst þú íslenskt eða erlent? Samtals sögðust 82,2% svarenda eingöngu eða frekar kjósa íslenskt kjöt. Samtals sögðust 1,2% frekar eða eingöngu kjósa erlent kjöt. 16,5% sögðust vera hlutlausir eða alveg sama.

Gallup spurði jafnframt: Hversu miklu eða litlu máli skiptir það þig að upplýsingar um uppruna kjöts séu á umbúðum þess? Samtals sögðu 88,3% það skipta öllu eða miklu máli. 4,5% sögðu aftur á móti að upprunamerkingar skiptu þau litlu eða engu máli. 7,2% þeirra sem svöruðu sögðu að upprunamerkingar skiptu hvorki miklu né litlu máli.

Könnunin var framkvæmd af Gallup fyrir Matarhátíð alþýðunnar. Um var að ræða netkönnun sem framkvæmd var dagana 3. til 11. ágúst 2016. Úrtakið var 1.439 manns af öllu landinu, 18 ára og eldri, handahófsvaldir úr viðhorfahópi Gallup. Þátttökuhlutfall var 54,9%.

mbl.is