Fyrsta bygging aldarinnar í Borgarfjarðarhreppi

Komi til þess að parhúsið verði byggt verður það fyrsta …
Komi til þess að parhúsið verði byggt verður það fyrsta íbúðarhús sem byggt er í Borgarfjarðarhreppi á þessari öld. Ljósmynd/Steinunn Ásmundsdóttir

„Það hefur verið skortur á húsnæði hér og það hefur verið viðvarandi í nokkuð mörg ár,“ segir Jakob Sigurðsson, oddviti sveitarstjórnar Borgarfjarðarhrepps. Sveitarstjórnin hefur samþykkt að sækja um stofnframlag til byggingar parhúss á grundvelli nýrra laga um almennar íbúðir.

Jakob Sigurðsson segir ekkert hafa verið byggt í Borgarfjarðarhreppi í langan tíma. „Það var byggt hérna svolítið í kringum 1980 og 1990 en þá var þetta verkamannabústaðakerfi og það voru byggð parhús í kringum það. Þess vegna höfum við ákveðið að halda áfram með parhúsin.“

Komi til þess að parhúsið verði byggt verður það því fyrsta íbúðarhúsið sem byggt er í Borgarfjarðarhreppi á þessari öld.

Jakob segir ástæðu þess að ekkert hafi verið byggt í hreppnum í svo langan tíma eflaust vera markaðsverð. „Fasteignaverð hér er frekar lágt en er þó sem betur fer að hækka. Menn sjá kannski fram á að fá ekki nema helming eða ríflega það ef þeir selja húsin miðað við byggingarkostnað. Það er þetta sem allt hefur strandað á.“

Húsnæðisskortur er á Borgarfirði eystri.
Húsnæðisskortur er á Borgarfirði eystri. mbl.is/Golli

Fólk vill frekar leigja en kaupa 

Þá segir hann fólksfækkun hafa orðið á Borgarfirði eystri þótt alltaf heyrist í fólki sem hafi áhuga á að flytjast þangað en geti það ekki vegna húsnæðisskorts. „Fólk vill frekar leigja en að kaupa til þess að sjá hvort það finni sig á staðnum. Það getur verið erfitt að kaupa ef maður stoppar stutt við,“ segir Jakob.

Samkvæmt vef Austurfrétta voru ný lög um almennar íbúðir samþykkt á Alþingi í júní en í þeim er gert ráð fyrir að stofnstyrkir verði veittir til byggingar leiguhúsnæðis. Stofnframlögin verða síðan veitt til lögaðila sem ekki hafa hagnaðarsjónarmið að leiðarljósi.

Fjármagn til stofnstyrkjanna er ákveðið á fjárlögum og mun Íbúðalánasjóður sjá um að meta umsóknirnar út frá því á hvaða svæði brýnust þörf er fyrir leiguhúsnæði fyrir leigjendur undir tekju- og eignamörkum. Almenna reglan er að stofnframlag ríkisins til lögaðila verði 18% af stofnvirði íbúða og stofnframlag sveitarfélaga 12%. Sveitarfélög geta þó fengið 6% aukastofnframlag til byggingar húsnæðis ef skortur er á leiguhúsnæði og bygging íbúða hefur verið í lágmarki eða sérstök vandkvæði eru á því að fá fjármögnun á almennum markaði.

mbl.is