Fengu upptökur frá Iðufelli

Lög­regl­an lokaði nokkr­um göt­um í Breiðholti þegar skotárásin var gerð.
Lög­regl­an lokaði nokkr­um göt­um í Breiðholti þegar skotárásin var gerð. mbl.is/Freyja Gylfadóttir

Rannsókn á skotárásinni í Breiðholtinu nú fyrr í mánuðinum er enn í fullum gangi. Fyrir helgi biðlaði lögregla til almennings um að hafa samband ef fólk teldi sig eiga myndir eða myndbandsupptökur af vettvangi og segir Friðrik Smári Björgvinsson yfirlögregluþjónn hjá rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, nokkuð af myndskeiðum hafa borist.

„Það barst eitthvað af upptökum sem verið er að vinna úr og við hvetjum fólk áfram til að koma myndum og upptökum til okkar, ef það býr yfir einhverju slíku,“ segir Friðrik Smári. 

Búið er að taka skýrslur af fjölda fólks sem varð vitni að atvikinu og segir Friðrik Smári ýmislegt hafa komið í ljós við rannsókn málsins sem ekki sé hægt að greina frá að svo stöddu. Hann segir enga aðra en mennina tvo sem voru úrskurðaðir í fjögurra vikna gæsluvarðhald á grundvelli almannahagsmuna hins vegar hafa stöðu grunaðra í málinu.

Málið er í forgangi hjá lögreglunni. „Þetta er grafalvarlegt mál, skotárás á almannafæri, þannig að þetta fær forgang hjá okkur,“ segir Friðrik Smári og kveður lögregluna enn vera þeirra skoðunar að skotárásin hafi ekki beinst gegn almenningi eða hverfinu sem slíku. „Þetta virðist vera uppgjör eða deilur milli þröngs hóps.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert