Meistarar tefla í minningu Birnu

Birna 21 árs. Um þetta leyti tók hún þátt í …
Birna 21 árs. Um þetta leyti tók hún þátt í Skákþingi Reykavíkur. Þá hafði hún teflt síðan hún mundi eftir sér, en hafði aldrei séð skákklukku eða skrifað niður skákir. Ljósmynd/aðsend

Minningarmót Birnu Norðdahl fer fram á Reykhólum á laugardaginn. Birna var fædd árið 1919 og skipar merkan sess í íslenskri skáksögu, en hún féll frá árið 2004. Fjórir stórmeistarar og kvennalandsliðið í skák eru meðal þeirra sem skráð eru til leiks á mótinu sem er þó öllum opið.

Í tilkynningu frá skákfélaginu Hróknum segir að mótið verði hið sterkasta sem haldið er utan höfuðborgarsvæðisins á árinu.

Birna var frumkvöðull að því að Íslendingar sendu í fyrsta skipti kvennasveit til keppni á Ólympíuskákmótið í Argentínu árið 1978 og efndi hún til söfnunar svo af ferðinni gæti orðið. Birna var í liðinu sem keppti í Buenos Aires og tefldi jafnframt á Ólympíuskákmótinu tveimur árum síðar og varð Íslandsmeistari árin 1976 og 1980.

Stórmeistarar mæta á Reykhóla

Kvennalandsliðið í skák, sem senn heldur til keppni á Ólympíuskákmótinu í Bakú, tekur þátt í mótinu. Liðið skipa þær Lenka Ptacnikova stórmeistari, Guðlaug Þorsteinsdóttir, Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir, Hrund Hauksdóttir og Veronika Steinunn Magnúsdóttir. Þá mætir til leiks Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir, sem tefldi í liði Íslands með Birnu á Möltu 1980.

Jóhannes Hjartarson, Íslandsmeistari í skák.
Jóhannes Hjartarson, Íslandsmeistari í skák. Ljósmynd/aðsend


Stigahæsti stórmeistari Íslendinga, Hannes Hlífar Stefánsson, er einnig meðal keppenda á mótinu, sem og Jóhann Hjartarson, nýbakaður Íslandsmeistari, og Jón L. Árnason fyrrverandi heimsmeistari sveina auk fleiri öflugra skákmeistara.

Jón L. Árnason fyrrverandi heimsmeistari í skák.
Jón L. Árnason fyrrverandi heimsmeistari í skák. Ljósmynd/aðsend

Við setningu mótsins á laugardaginn mun Hlynur Þór Magnússon sagnfræðingur á Reykhólum flytja ávarp, en hann átti hugmyndina að því að heiðra minningu Birnu með þessum hætti. Þá mun Ingibjörg Birna Erlingsdóttir sveitarstjóri setja mótið formlega.

Tefldar verða 8 umferðir með 10 mínútna umhugsunartíma. Kvenfélagið Katla á Reykhólum mun annast veitingar meðan á móti stendur og þá verða ýmsir munir og myndir sem tengjast Birnu til sýnis.

Skákfélagið Hrókurinn skipuleggur mótið með stuðningi Reykhólahrepps, Þörungaverksmiðjunnar, Skáksambands Íslands og fjölda fyrirtækja og einstaklinga. Tekið er við skráningum í hrafnjokuls@hotmail.com og fólk hvatt til að skrá sig tímanlega enda kjörið tækifæri fyrir skákáhugafólk til að mæta stórmeisturum. Samkvæmt tilkynningu nema verðlaun á mótinu rúmlega 400 þúsund krónum og í fyrsta skipti í íslenskri skáksögu, svo vitað sé, renna hærri verðlaun til kvenna.

Frekari upplýsingar um mótið má nálgast á heimasíðu Hróksins.

Birna er sögð hafa verið glöð og brosmild kona og …
Birna er sögð hafa verið glöð og brosmild kona og geislaði af henni orka og áhugi. Mynd/aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert